Fiskikóngurinn: „Mér fannst sárt að heyra það“

Kristján Berg telur ekki nógu mikið gert fyrir fólk með …
Kristján Berg telur ekki nógu mikið gert fyrir fólk með geðræn vandamál. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Berg, eigandi Fiskikóngsins, segir að hann hafi birt heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag vegna þess að margir eiga um sárt að binda vegna geðrænna vandamála en fái ekki næga aðstoð.

Í auglýsingunni biðst hann af­sök­un­ar á því að hafa notað orðið „fífl“ um mann sem braut rúðurn­ar í versl­un hans. Spurður af hverju hann birti auglýsinguna segir hann:

„Ég held að það séu margir sem eiga um sárt að binda og hafa það ekki nógu gott í þjóðfélaginu. Varðstjórinn hringdi í mig og sagði að hann væri búinn að vera að ganga um hverfið þessi einstaklingur og brjóta rúður og bíla og skemma. Hann er bara tekinn og svo hent út á götu aftur, það er ekkert athvarf fyrir hann. Mér fannst sárt að heyra það,“ segir Kristján Berg, betur þekktur sem fiskikóngurinn, í samtali við mbl.is.

Einstaklingur sem á mjög bágt

Hann nefnir að í kjölfar þess að hann hafi greint frá skemmdarverkunum hafi honum einnig borist mörg myndbönd frá fólki af viðkomandi manni að skemma ýmsa hluti.

„Þessi einstaklingur á mjög bágt og mér finnst skrýtið að fólk sem er svona veikt og er handtekið fyrir svona gróf brot – skemmdarverk og annað – að það sé bara sent aftur út í samfélagið án þess að eitthvað sé gert í málum þeirra eða fólkið aðstoðað.“

Eftir færsluna sem Kristján setti inn eftir atvikið fékk hann tvær athugasemdir um að hann ætti ekki að nota orðið „fífl“ um manninn.

„Ég var gagnrýndur og ég fór bara að hugsa mitt mál og fór að hugsa hvernig þetta fólk hefði það,“ segir Kristján Berg.

Telur ekki nógu mikið gert 

Í auglýsingunni beindi Kristján spjót­um sín­um að rík­is­stjórn Íslands.

„Hins veg­ar vil ég segja að marg­ir í þess­ari rík­is­stjórn eru „fífl“ fyr­ir að hlúa ekki bet­ur að fólki sem eiga við geðræn vanda­mál að etja. Rík­is­stjórn Íslands: Þið getið gert bet­ur en þetta,“ segir í auglýsingunni.

Kristján kveðst hafa kynnt sér nánar stöðu fólks með geðræn vandamál og telur ekki nógu mikið gert til þess að hjálpa fólki með geðræn vandamál.

„Ég á nú sjálfur við geðræn vandamál að stríða. Ég er þunglyndur þegar það er dimmt úti og hef glímt sjálfsvígshugsanir og annað og ég veit hvernig ég er í þeim sporum. Ég held að ég sé nú ágætlega heilbrigður og get leitað mér lækninga en svo er fólk sem er komið á miklu verri stað heldur en ég nokkurn tímann. Kannski farið að blanda áfengi og fíkniefnum við þetta og þá er þetta ekki gott,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Morgunblaðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka