Auður Lilja tekur þátt í forvali VG

Auður Lilja Erlingsdóttir
Auður Lilja Erlingsdóttir

Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður Ungra vinstri-grænna, hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmunum og Suð-Vesturkjördæmi sem haldið verður 2. desember næstkomandi. Auður sækist eftir öðru sæti í forvalinu.

Auður Lilja hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Auður Lilja er formaður Ungra vinstri-grænna og gegndi áður embætti varaformanns Ungra vinstri – grænna í Reykjavík. Hún hefur auk þess setið í stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík og sat jafnframt í kosningastjórn VG fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Auk starfa sinna fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð hefur hún starfað í Stúdentaráði, stjórn Stúdentaráðs og situr nú í stjórn Félagsstofnunar Stúdenta.

Auður Lilja mun útskrifast með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands í lok þessa mánaðar, en áður var hún útskrifuð sem stjórnmálafræðingur frá sama skóla. Undanfarin ár hefur Auður starfað sem ráðgjafi á einstaklingssviði tveggja banka, fyrst í KB-banka og síðar í Sparisjóði Vélstjóra, samhliða námi.

Eiginmaður Auðar Lilju er Freyr Rögnvaldsson, stjórnmálafræðingur og eiga þau saman eina dóttur, Freyju Sigrúnu, fædda í febrúar 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert