Verið að skoða ýmis mál varðandi hugsanlegt samstarf

Jón Sigurðsson, Guðjón A. Kristjánsson og Geir H. Haarde fylgjast …
Jón Sigurðsson, Guðjón A. Kristjánsson og Geir H. Haarde fylgjast með kosningatölum í sjónvarpssal í gærkvöldi.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokkur, segir að þeir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, hafi í dag hist og farið yfir ýmis mál viðkomandi því hvort flokkarnir haldi hugsanlega áfram stjórnarsamstarfi.

„Við ákváðum að taka okkur tíma til þess að fara yfir þau mál,“ sagði Jón við Morgunblaðið. „Það er enginn almennur ágreiningur í ríkisstjórninni og við erum einfaldlega að fara yfir alla þessa þræði og þætti með vinsamlegum málefnalegum hætti. Þá reynir á hvort samstaða verður um að starfa saman áfram.“

Fyrir kosningarnar lét Jón að því liggja að yrði fylgi við Framsóknarflokkinn í samræmi við slæmt gengi hans í skoðanakönnunum yrði flokkurinn líklega ekki áfram í ríkisstjórn.

„Þá var ég að tala um stjórnarmyndunarviðræður. Stjórnarmyndunarviðræður eru ekki hafnar. Við erum að tala saman sem samstarfsmenn í ríkisstjórn sem hefur meirihluta á þingi. Það er alveg ljóst að miðað við niðurstöður kosninganna þá munu Framsóknarmenn ekki hafa neitt frumkvæði, að minnsta kosti ekki í fyrstu áföngum í stjórnarmyndunarviðræðum.“

En hefur verið rætt við Framsóknarflokkinn um að koma að annars konar stjórnarmynstri?

„Það eru alls konar kviksögur á ferðum sem fara eins og goluþytur um eyrun,“ svaraði Jón. Hann kvaðst ekki hafa fengið neinar formlegar beiðnir í þessa veru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert