Davíð í framboð?

Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og seðlabankastjóri. Sverrir Vilhelmsson

Heimildir Morgunblaðsins herma að Davíð Oddsson íhugi nú að bjóða sig fram til þingmennsku fyrir Alþingiskosningarnar í vor, í Suðurkjördæmi. Heimildir þessar herma að undirskriftum vegna hugsanlegs framboðs hans hafi þegar verið safnað en að ekki sé víst hvort hann býður sig fram.

Heimildir innan Sjálfstæðisflokksins herma að Eyþór Arnalds og fleiri sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafi safnað nauðsynlegum undirskriftum fyrir Davíð nú seinni hluta vikunnar og að fullnægjandi fjöldi þeirra liggi fyrir. Haft var samband við Eyþór sem vildi lítið tjá sig um málið. Hann sagði þó gríðarlegan áhuga fyrir því í kjördæminu að fá Davíð í framboð.

Aðspurður hvort það sé satt að undirskriftunum hafi verið safnað fyrir Davíð segir Eyþór: „Það voru margir sem voru áhugasamir um að fá hann í framboð í gær. Það voru umræður um það víða um kjördæmið og gríðarlegur áhugi er á því að hann komi inn í stjórnmálin, maður heyrir það.“

„Þegar það kom fram að hann væri að fara úr Seðlabankanum og Árni Mathiesen færi ekki fram, þá varð mikil umræða um það að hann gæfi kost á sér. Hann á mikið inni hjá þjóðinni,“ segir Eyþór.

Davíð Oddsson á rætur að rekja til Selfoss, þótt hann hafi á sínum tíma verið borgarstjóri í Reykjavík og þingmaður fyrir Reykjavík, áður en hann varð Seðlabankastjóri.

Framboðsfrestur í Reykjavíkurkjördæmunum er nú útrunninn en frestur er til klukkan 17 í dag til að tilkynna framboð í Suðurkjördæmi hjá Sjálfstæðisflokknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina