Samfylking stærst í Reykjavík norður

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 22% í Reykjavík norður samkvæmt nýrri könnun, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Ríkisútvarpið og Morgunblaðið. Í kosningunum 2007 fékk flokkurinn 36% atkvæða í kjördæminu en í könnun, sem Capacent gerði á fylgi flokkanna á landsvísu í lok mars, mældist fylgi Sjálfstæðisflokks 21,7% í kjördæminu.

Þá er Borgarahreyfingin komin upp fyrir Framsóknarflokkinn í kjördæminu.  

Fylgi Samfylkingarinnar mælist 34,3% í Reykjavík norður samkvæmt nýju könnuninni, sem gerð var yfir páskana eða dagana 8.-13. apríl. Fylgið mældist 30,6% í kjördæminu í könnuninni í lok mars. Vinstrihreyfingin-grænt framboð fær 29,1% nú en mældist með 32,9% í mars. Sjálfstæðisflokkur  fær 22% eins og áður segir, Borgarahreyfingin 8,1% en var með 5% í mars, Framsóknarflokkurinn 5,3% en var með 6,5% í mars, Frjálslyndi flokkurinn 1,1% og Lýðræðishreyfingin 0,2%.  

Samkvæmt þessu fær Samfylkingin 4 kjördæmakjörna þingmenn, VG 3 og Sjálfstæðisflokkurinn 2.  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, kemst ekki á þing, samkvæmt þessu. Borgarahreyfingin er næst því að koma inn manni í kjördæminu, Þráinn Bertelsson, þá á kostnað fjórða mannsins á lista Samfylkingarinnar. Tvö uppbótarþingsæti eru að auki í kjördæminu.

65,4% þeirra, sem tóku afstöðu í könnuninni, sögðust styðja ríkisstjórnina.

Um var að ræða net- og símakönnun. Úrtakið í netkönnuninni var tilviljunarúrtak úr viðhorfahópi Capacent Gallup en úrtakið í símakönnuninni var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Heildarúrtaksstærð var 800 manns 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 60,5%.

mbl.is

Bloggað um fréttina