Eins og spírall niður á við

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson. Mbl.is/Frikki

Sigurjón Þórðarson, sem skipaði annað sætið á lista Frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi, segir slæma útreið flokksins í kosningunum koma sér á óvart, ekki síst í sínu kjördæmi, sem hefur verið eitt höfuðvígi flokksins í gegnum tíðina. „Við vorum nú með skoðanakönnun þar sem fylgið mældist verulega betra í þessu kjördæmi," segir hann.

Hann bætir því þó við að hann telji skoðanakannanirnar sjálfar vera skoðanamyndandi. „Það hefur haft eitthvað að segja því þegar menn mælast illa virkar það eins og spírall niður á við. Ég er alveg viss um að það sé ekki við stefnuna að sakast því ég held að eina leiðin út úr þessu ástandi sé að auka tekjur samfélagsins." Þá telur hann skýringuna einnig að finna í deilum og átökum innan flokksins að undanförnu.

Hann reiknar með því að flokksmenn muni nú setjast niður til að meta stöðuna og haldi svo áfram sínu striki. Næstar á dagskrá séu sveitarstjórnarkosningar næstkomandi vor. „Ég á von á því að flokkurinn stefni að þeim af fullum krafti," segir Sigurjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina