Mun setja bankana aftur í þrot

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. mbl.is/Eyþór

„Menn eru harmi slegnir og í stað þess að eyða tíma sínum í að reka fyrirtækin og verja þau þá eru þeir uppteknir af þessu,“ segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ um möguleika þess að næsta ríkisstjórn kalli inn aflaheimildir í áföngum.

„Við trúum því enn að þetta verði ekki,“ segir hann og vísar í orð Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, um að ríkisstjórnin verði að vanda sig er kemur að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Fyrningarleiðin er að mati Friðriks skref afturábak fyrir þjóðina, sjávarútveginn og efnahag landsins. Það sé ekki að ástæðulausu sem sífellt fleiri ríki velji nú þessa leið sem jafnvel sé til skoðunar hjá ESB.

 Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, telur ljóst að bankakerfið verði gjaldþrota á ný verði fyrningarleiðin valin. Samkvæmt útreikningum sem að hann byggði á ársreikningum fjölda sjávarútvegsfyrirtækja frá árabilinu 2001-2007, þar sem hann lagði 5% fyrningu á útgerðarhlutann, yrðu fyrirtækin komin í þrot að sjö árum liðnum. „Ef allur núverandi sjávarútvegur verður gjaldþrota og allar skuldir hans lenda á bankakerfinu og þjóðinni, reiknast mér til að það þýði sex milljónir kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þá þarf væntanlega að skattleggja þjóðina því að bankakerfið verður gjaldþrota,“ segir Sigurgeir.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert