Þóra mælist með mest fylgi

Þóra Arnórsdóttir býður sig fram til embættis forseta Íslands
Þóra Arnórsdóttir býður sig fram til embættis forseta Íslands Ómar Óskarsson

Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar HÍ á fylgi forsetaframbjóðendanna sem gerð var  dagana 24.-26. apríl fengi Þóra Arnórsdóttir mest fylgi, 49%. Ólafur Ragnar Grímsson mælist með 34,8% og Ari Trausti Guðmundsson 11,5%. Aðrir frambjóðendur mælast með minna fylgi.

Könnunin var send á netpanel Félagsvísindastofnunar, sem byggir á tilviljunarúrtökum úr Þjóðskrá. Gögnin voru að auki vigtuð með tilliti til aldurs, kyns og búsetu svo þau endurspegli þjóðina, samkvæmt fréttatilkynningu frá Félagsvísindastofnun.

Sami hópur var spurður um afstöðu sína til frambjóðenda hinn 17. apríl síðastliðinn en þá hafði Ari Trausti Guðmundsson ekki gefið kost á sér. Hann virðist sækja fylgi sitt einkum til óákveðinna en 46% þeirra sem nú segjast ætla að kjósa hann ætluðu áður að skila auðu, voru óákveðnir eða vildu ekki svara.

0,8% sögðust ætla að kjósa Ástþór Magnússon, 0,3% ætla að kjósa Hannes Bjarnason, 3% hyggjast kjósa Herdísi Þorgeirsdóttur og 0,6% Jón Lárusson.

Þriðjungur stuðningsmanna Ara Trausta ætlaði að kjósa Þóru Arnórsdóttur þegar spurt var 17. apríl og 11% ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson.

Svarendur voru spurðir að því hvað vægi þyngst við val þeirra. Velja mátti að hámarki þrjú atriði af 15. Almennt þótti svarendum þekking og reynsla frambjóðandans mikilvægust og því næst heiðarleiki frambjóðandans.

Þannig segir 61% þeirra sem styðja Ólaf Ragnar Grímsson að þekking hans og reynsla sé einn af þremur þáttum sem vegi þyngst í ákvörðun þeirra. Það sama gildir um 24% stuðningsfólks Þóru Arnórsdóttur og 37% þeirra sem styðja Ara Trausta Guðmundsson. Tæpur helmingur stuðningsfólks Ara Trausta segir heiðarleika hans vega einna þyngst í ákvörðuninni en það á við um 45% stuðningsfólks Þóru en 18% þeirra sem styðja Ólaf Ragnar.

Almenn framkoma Þóru Arnórsdóttur þótti vega þungt í ákvörðun 51% stuðningsmanna hennar. Á hinn bóginn nefndu einungis 16% stuðningsmanna Ólafs Ragnars að almenn framkoma vægi einna þyngst í ákvörðuninni um hvaða frambjóðanda skyldi greiða atkvæði.

Sá eiginleiki í fari Ara Trausta Guðmundssonar sem flest stuðningsfólk hans er sammála um að vegi þungt við ákvörðunina um að greiða honum atkvæði er heiðarleiki hans. Þekking og reynsla Ólafs Ragnars Grímssonar er sá eiginleiki sem flest stuðningsfólk hans velur en almenn framkoma Þóru Arnórsdóttur er sá eiginleiki sem flest stuðningsfólk hennar segir hafa vegið þungt við ákvarðanatökuna.

Könnunin var send á 1.961 þátttakanda og alls svöruðu 1.379. Svarhlutfallið er því 70%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert