Spyr um siðferðisþrek Ólafs og Þóru

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir.
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir.

„Það kemur verulega á óvart að stærsti einkarekni fjölmiðill landsins skuli taka skýra afstöðu gegn lýðræðislegri umfjöllun í forsetakosningum þar sem einungis tveimur frambjóðendum er boðið að tjá sig í umræðuþætti Stöðvar 2 á sunnudag,“ skrifar Andrea Ólafsdóttir, forsetaframbjóðandi, á heimasíðu sinni.

 „Lögformleg staðfesting á framboðum hefur ekki ennþá verið gefin út af innanríkisráðuneytinu. Þessi framkoma 365 minnir okkur enn og aftur á það hversu mikilvægu hlutverki þeir gegna í hinu lýðræðislega ferli. Það hlýtur að vekja upp spurningar í hugum kjósenda hvort þessir tveir frambjóðendur hafi það siðferðisþrek sem þeir vilja sjá í forsetaefni. Svo snemma í kosningabaráttunni, þegar heill mánuður er til stefnu, er þetta stefnumarkandi ákvörðun af hálfu 365 að vilja hampa ákveðnum frambjóðendum. Ábyrgð þeirra er mikil og rökstuðningur þeirra fyrir ákvörðuninni byggir einvörðungu á niðurstöðum skoðanakannana.“

Sem borgari í lýðræðissamfélagi veltir Andrea því fyrir sér hvort Blaðamannafélagið og aðrir fjölmiðlar muni gagnrýna þessa ákvörðun og taka hana til umfjöllunar. „Að mínu mati væri það siðferðislega rangt og skýr afstaða gegn lýðræðislegu ferli í aðdraganda kosninga að halda slíkan umræðuþátt af stærsta einkarekna fjölmiðlinum á markaði þar sem er mikil fákeppni. Það væri sömuleiðis siðferðilega rangt að mínu mati af Ólafi Ragnari og Þóru að þekkjast slíkt boð. En það verður ekki mín ákvörðun. Kjósendur munu að sjálfsögðu fella sinn eigin dóm,“ skrifar Andrea.

mbl.is

Bloggað um fréttina