Ólafur með 44,5% en Þóra 36,9%

MMR hefur birti niðurstöður nýrrar könnunar á fylgi frambjóðenda í forsetakosningunum. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 44,5% ætla að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson og 36,9% sögðust ætla að kjósa Þóru Arnórsdóttur.

Þá voru 10,1% þeirra sem tóku afstöðu sem lýstu yfir stuðningi við Ara Trausta Guðmundsson, 4,6% vildu kjósa Herdísi Þorgeirsdóttur, 2,0% Andreu J. Ólafsdóttur og 1,9% Hannes Bjarnason.

Niðurstaðan er því að tæpum átta prósentum munar á fylgi Ólafs Ragnars og Þóru, sem er marktækur munur. Breytingar á fylgi einstakra frambjóðenda frá síðustu könnun eru þó innan vikmarka.

Könnun MMR sýnir sömu þróun og fram hefur komið í öðrum könnunum síðustu daga og vikur. Fylgi Ólafs Ragnar hefur aukist, en fylgi Þóru hefur minnkað.

Sem fyrr reyndist töluverður munur á afstöðu fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokka það sagðist styðja væri gengið til kosninga nú (og fer vaxandi frá fyrri könnunum). Þannig voru 67,2% framsóknarmanna, 63,7% sjálfstæðismanna og 45,7% stuðningsfólks Samtöðu sem sögðust kjósa Ólaf Ragnar. Á hinn bóginn voru 74,5% samfylkingarfólks, 59,5% Vinstri-grænna og 65,3% stuðningsfólks Bjartrar framtíðar sem sagðist vilja kjósa Þóru. Þá voru 62,0% þeirra sem sögðust styðja ríkisstjórnina sem jafnframt sögðust kjósa Þóru. Á móti voru 57,8% þeirra sem sögðust andvígir ríkisstjórninni sem sögðust vilja kjósa Ólaf Ragnar.

Könnunin var gerð dagana 13.-19. júní og var heildarfjöldi svarenda 1816 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára.

Nánar um könnunina

mbl.is

Bloggað um fréttina