Kristján Þór: „Þakklátur fyrir traustið“

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

„Ég er hvorttveggja mjög ánægður og gríðarlega þakklátur fyrir þessa traustsyfirlýsingu sem felst í svo afgerandi niðurstöðu í þessu prófkjöri,“ segir Kristján Þór Júlíusson alþingismaður um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Kristján Þór var langefstur og Valgerður Gunnarsdóttir hafnaði í öðru sæti.

„Ég er þakklátur öllu því fólki sem veitir mér þetta umboð og ekki síður hinum — mörg hundruð einstaklingum — sem lögðu mér lið við það að ná þessari niðurstöðu fram,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

Aðspurður telur Kristján Þór listann vera mjög frambærilegan og að menn muni ganga samhentir til verka í þingkosningunum í vor. Menn setji sér það markmið að ná betri árangri í kjördæminu í ár heldur en var í kosningunum fyrir fjórum árum.

„Ég vek athygli á því, að samkvæmt reglum flokksins er um að ræða bindandi kosningu í öll þessi sex sæti fyrir kjörnefndina. Ég tel að þessi úrslit sýni vel og staðfesti í rauninni með afgerandi hætti einnig, að það er best að trúa og treysta einstaklingum til þess að velja þá hæfustu einstaklinga til þessara hluta hverju sinni. Án þess að það þurfi að leggja fólki einhverjar reglur um kyn eða búsetu, sem þeim er ætlað að fara eftir, “ segir hann.

Tryggvi Þór ofmat eigin styrk í kjördæminu

Þingmaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson sóttist einnig eftir því að leiða listann í kjördæminu en hann varð ekki á meðal sex efstu í prófkjörinu. Kristján Þór segir að Tryggvi hafi sýnt mikinn metnað en það sé ljóst að niðurstaða prófkjörsins „bendir mjög eindregið til þess að hann hafi ofmetið eigin styrk í þessum efnum.“

Kristján Þór segir að niðurstaðan gefi mönnum aukinn kraft til að takast á við þau verkefni sem framundan séu í komandi kosningum. „Ég setti mér tvö markmið í þessu prófkjöri. Í fyrsta lagi það að þátttakan í því yrði góð. Niðurstaðan er einfaldlega þannig að við erum að fá um 40% aukna þátttöku frá síðasta prófkjöri hérna, sem voru 2.000 manns. Núna erum við með um 2.700 manns. Í öðru lagi setti ég mér það markmið að fá óskorað umboð og sterkt, og það gengur gríðarlega vel eftir,“ segir Kristján Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert