Biðröð myndaðist í Laugardalshöll

Stundum hafa myndast biðraðir við utankjörfundarkosningu í Laugardalshöll.
Stundum hafa myndast biðraðir við utankjörfundarkosningu í Laugardalshöll. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Biðröð myndaðist þegar utankjörfundaatkvæðagreiðsla hófst í Laugardalshöll kl. 10 í morgun. Opið verður í Höllinni til kl. 22 í kvöld. Skömmu fyrir hádegi voru rúmlega 25.000 búnir að kjósa utankjörfundar.

Bergþóra Sigmundsdóttir, hjá sýslumanninum í Reykjavík, segir að mun fleiri hafi kosið utankjörfundar núna en fyrir þingkosningarnar 2009, en talsvert færri en fyrir forsetakosningarnar í fyrra. Hafa þarf í huga að forsetakosningarnar fóru fram á miðju sumri og í þeim kosningum kusu 25% af þeim sem tóku þátt í kosningunni utankjörfundar.

Kl. 11:45 í morgun voru 25.588 búnir að kjósa á landinu öllu. Þegar kosning hófst í Reykjavík kl. 10 í morgun höfðu 13.201 kosið, en á sama tíma 2009 höfðu 8.600 kosið. Degi fyrir forsetakosningarnar höfðu 14.451 kosið utan kjörfundar í Reykjavík.

1.848 kusu í Reykjavík í gær, en talsvert fleiri kusu á þriðjudaginn og miðvikudaginn. Bergþóra sagði að meiri dreifing hefði verið í kosningunni í ár en oft áður. Það væri gott því stundum hefðu myndast biðraðir síðasta daginn fyrir kjördag. Nánast engin biðröð var í Laugardalshöll skömmu fyrir hádegið.

Á morgun geta þeir sem búa í landsbyggðarkjördæmunum kosið utankjörfundar í Laugardalshöll milli kl. 10-17.

Hægt er að kjósa hjá öllum sýslumönnum landsins. Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu geta því einnig kosið hjá sýslumanninum í Hafnarfirði og í Kópavogi.

mbl.is

Bloggað um fréttina