„Ætli ég taki þetta ekki í stafrófsröð“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ólafur Ragnar Grímsson ræða við blaðamenn …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ólafur Ragnar Grímsson ræða við blaðamenn á Bessastöðum í dag. mbl.is/Golli

„Ætli ég taki þetta ekki bara í stafrófsröð,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, þegar hann ræddi við fjölmiðla að loknum fundi með forseta Íslands. Hann var þar að svara spurningu um við hvaða formann hann ætlaði að ræða fyrst.

Flestir hafa reiknað með að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur myndu hefja stjórnarmyndunarviðræður strax að loknum kosningum. Það er enn sennilegast að þessir tveir flokkar byrji fyrst að ræða saman, en Sigmundur Davíð hefur varist fimlega öllum spurningum fjölmiðlamanna í dag og í gær þegar hann er spurður hvaða flokkar hann telji líklegast að reyni fyrst formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Með því að halda öllum möguleikum opnum er hann að leggja áherslu á að það sé hann sem stýri viðræðum og jafnframt að skapa sér sterka stöðu í viðræðum við aðra flokka.

Bjarni vildi hefja viðræður strax

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við blaðamenn í gær að það ætti „ekki að vera að flækja myndina of mikið“ þegar það blasti við að stærstu flokkarnir ættu að byrja á því að ræða saman. „Mér finnst það vera í mjög góðu samræmi við niðurstöður kosninganna að þessir tveir flokkar [Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn] myndu hefja samtalið og málefnalega sé ég svo sem engin stór mál sem ættu að koma í veg fyrir það, þó að það þurfi að vinna úr einstaka þáttum,“ sagði Bjarni í gær og bætti við að hann gerði ráð fyrir að flokkarnir byrjuðu að ræða saman strax í dag [þ.e. í gær].

Sigmundur Davíð hefur hins vegar haldið að sér höndunum og ákveðið að „flækja myndina“ með því að byrja á því að ræða við formenn allra flokkanna. Þegar Sigmundur Davíð var í dag spurður hvort hann reiknaði með að formlegar stjórnarmyndunarviðræður myndu hefjast á morgun sagði að hann gæti ekki svarað því. Það færi eftir því hversu langan tíma tæki að ræða við formenn hinna flokkanna.

Sigmundur Davíð sagði á Bessastöðum í morgun að hann ætlaði að heyra afstöðu formanna hinna flokkanna „til þeirra úrlausnarefna sem samfélagið stendur frammi fyrir og kannski ekki síst til þeirra lausna sem framsóknarmenn hafa boðað“.

Hafa gagnrýnt tillögur framsóknarmanna

Fyrir kosningar lýsti Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, því yfir að tillögur framsóknarmanna varðandi skuldavanda heimilanna ættu eftir að valda verðbólgu og eignabólu. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði á RÚV eftir kosningar að hann hefði ekki trú á þeirri leið sem framsóknarmenn hefðu talað fyrir. Þetta væri „ekki leið sátta“. Hann bætti við að eðlilegast væri að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ræddu fyrst saman.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa í kosningabaráttunni farið varlega i að gagnrýna beint tillögur framsóknarmanna varðandi skuldavanda heimilanna, en einstakir frambjóðendur flokksins hafa gert það.

Miðað við yfirlýsingar Árna Páls og Guðmundar má spyrja hvers vegna Sigmundur Davíð telur nauðsynlegt að ræða við þá um tillögur framsóknarmanna.

Ástæðan er vafalítið sú að Sigmundur Davíð vill undirstrika, gagnvart sjálfstæðismönnum, að það er hann sem er með sterkustu spilin á hendi. Hann vill því að viðræðurnar fari fram á forsendum sem Framsóknarflokkurinn leggur fram.

Þrjú markmið framsóknarmanna í viðræðunum

Það þarf ekki að ræða við marga framsóknarmenn til að átta sig á því hverju þeir vilja ná fram ef viðræður hefjast við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir vilja að Sigmundur Davíð verði forsætisráðherra, að flokkarnir fái jafnmarga ráðherra og að staðið verði við það sem framsóknarmenn lofuðu um skuldavanda heimilanna.

Sigmundur Davíð sagði á Bessastöðum í morgun að það skipti framsóknarmenn verulegu málið að hugsanlegir samstarfsflokkar í ríkisstjórn séu reiðubúnir að vinna að lausn skuldavanda heimilanna og bætti svo við að hann væri að „sjálfsögðu opinn fyrir tillögum varðandi útfærslur.“

Ræðir næst við forsetann um miðja næstu viku

Eins og staðan er núna er ekki annað að sjá en að forystumenn sjálfstæðismanna verði að sætta sig að bíða á biðstofunni hjá Sigmundi Davíð eins og forystumenn hinna flokkanna. Sennilegast er að Sigmundur Davíð og Bjarni hefji síðan formlegar viðræður um miðja vikuna. Forseti Íslands sagði á Bessastöðum í dag hann hefði rætt við Sigmund Davíð um að koma til viðræðna við sig um miðja næstu viku til að gera sér grein fyrir gangi viðræðna.

Síðustu ár hafa stjórnarmyndunarviðræður yfirleitt tekið innan við tvær vikur. Fyrir 1991 var ekki óalgengt að það tæki tvo mánuði að mynda ríkisstjórn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í gær að hann vildi …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í gær að hann vildi að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hæfu formlegar viðræður sem fyrst. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina