„Draslhrúgan orðin augljós“

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, hjá Framsóknarflokki og flugvallarvinum
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, hjá Framsóknarflokki og flugvallarvinum

„Í sparnaðaraðgerðum núverandi meirihluta í borgarstjórn var viljandi komið á lóðaskorti,“ segir oddviti Framsóknarflokks og flugvallarvina í Reykjavík. „Fyrir það eru íbúar í Reykjavík nú að gjalda.“

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir skipar 1. sæti á lista Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Hún sendi eftir hádegið í dag frá sér tilkynningu þar sem hún sakar meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að hafa viljandi komið á lóðaskorti í borginni. „Borgarbúar gjalda fyrir það, fyrst og fremst með himinháu leiguverði, leiguverði sem hefur hækkað um 25% á síðasta ári skv. nýlegri samantekt. En þeir gjalda líka fyrir það með þar sem fasteignaverð hefur rokið upp úr öllu valdi og nær ókleift er fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið.“

Hún segir að borginni verði að koma í traustar hendur kvenna sem vanar séu að taka málin í sínar hendur, en konur eru í efstu þremur sætum listans. „Það er hægt að hafa rosa gaman og svaka fjör og allir í góðum gír að grilla á meðan vandamálunum er sópað undir teppið, en nú er draslhrúgan orðin augljós. Í komandi kosningum verður að veljast fólk sem hefur þekkingu, kjark og þor til að taka á húsnæðiseklunni í borginni og ráðast til atlögu við að vinna lausnir á því himinháa leiguverði sem í boði er í borginni okkar. Það verður ekki gert með því að byggja húsnæði á dýrasta stað í borginni eins og meirihlutinn ætlar sér,“ segir Sveinbjörg.

mbl.is