Hart tekist á í forsetakappræðum

Davíð sótti hart að Guðna í sjónvarpsþættinum Eyjunni.
Davíð sótti hart að Guðna í sjónvarpsþættinum Eyjunni.

Davíð Oddsson gerði nokkra hríð að Guðna Th. Jóhannessyni í sjónvarpsþættinum Eyjunni, í stjórn Björns Inga Hrafnssonar, á Stöð 2 síðdegis. Sagði hann Guðna hafa reynt að hlaupast undan orðum sínum hvað varðar ESB, Icesave-samningana og stjórnarskrárbreytingar.

Þeir fjórir frambjóðendur sem hafa mælst með mest fylgi þeirra sem bjóða sig fram til embættis forseta Íslands voru gestir í þættinum, en Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir mættust í fyrri hluta þáttarins og Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson mættust í síðari hlutanum.

Sagði Guðna hlaupast undan orðum sínum

„Almenningur veit ekkert um Guðna eða fyrir hvað hann stendur og raunar hefur hann verið að hlaupa frá því á harðakani en ég veit ekki af hverju,“ sagði Davíð og bætti við að síðasta kjörtímabil hafi verið illa nýtt, en þá hafi meirihluti þingsins viljað ganga inn í ESB „eins og Guðni,“ greiða Icesave-samningana „eins og Guðni,“ og breyta stjórnarskránni „eins og Guðni“. Sagði hann að Guðni yrði að vera maður til að standa við það sem hann hafi sagt en ekki hlaupa frá því. „Ég hleyp aldrei frá neinu, og ég hleyp svo sem aldrei,“ sagði hann svo.

Guðni sagðist ekki hafa reynt að hlaupa undan orðum sínum en það mætti ekki taka orð hans úr samhengi þegar verið væri að ræða þessi mál. Menn ættu að vera sanngjarnir og heiðarlegir. Þá sagði hann að forseti ætti að standa utan flokka, vera sameiningartákn og hafa framtíðarsýn. Því skipti persónuleg skoðun hans á ákveðnum málum ekki máli í því samhengi. „Forseti verður að vera forseti þeirra sem eru með og þeirra sem eru á móti ESB,“ sagði hann. „Þjóðin á að eiga fyrsta og síðasta orðið. Forseti Íslands mótar ekki Evrópustefnu á Íslandi heldur kjörnir fulltrúar.“

Þá sagði Guðni að forseti Íslands þyrfti að vera trúr sannfæringu sinni og tala máli þjóðarinnar. Davíð gagnrýndi hann þá og sagði að það orkaði tvímælis hjá honum að segja að forseti ætti ekki að taka afstöðu í málum en ætti samt að hafa sannfæringu. „Til að hafa sannfæringu þarf fólk að taka afstöðu. Fólk finnur að það er holur hljómur ef þú hefur ekki sannfæringu.“

„Davíð, hefurðu enga sómakennd?“

Davíð gagnrýndi Guðna harðlega fyrir að hafa á sínum tíma talað fyrir því að samþykkja hefði átt svokallaðan Svavarssamning, sem Davíð sagði „verstan allra samninganna“ í Icesave-deilunni. Guðni benti þá á að hann hafi líkt samningnum við Versalasamninginn þar sem Íslendingar hefðu ekki getað staðið við hann. „Varstu virkilega að mæla með því að við gerðum samning sem við myndum ekki standa við?“ sagði Davíð þá.

Þá sagði Davíð Guðna einnig hlaupa frá því að hafa sagt eftir hrunið að gera ætti „gagngerar, nauðsynlegar og róttækar“ breytingar á stjórnarskránni. „Davíð, hefurðu enga sómakennd?“ sagði Guðni þá og bætti við að hann hafi aldrei haldið því fram að kollvarpa ætti stjórnarskránni. Það sé ekki hlutverk forseta að breyta stjórnarskránni, heldur þingmanna sem kosnir eru af þjóðinni. Hann hafi þó talað fyrir því að ákvæði yrði sett í stjórnarskrá um að tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, í stað þess að atbeina forseta þurfi.

Davíð nefndi svo landhelgismálin til sögunnar og ummæli sem hann sagði Guðna hafa haft uppi um þau á þá vegu að Íslendingar hafi ekki unnið sigur í landhelgismálunum. Nokkur umræða skapaðist um þetta og voru frambjóðendurnir ekki sammála um hvað Guðni hefði sagt og hvernig ætti að skilja orð hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert