Ekki tímabært að lýsa yfir dauða

Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé.
Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljóst er að talsverð hreyfing er á fylgi kjósenda við stjórnmálaflokka þessa dagana, eins og nýlegar skoðanakannanir gefa til kynna. Þannig hefur VG verið að sækja aukið fylgi, sömuleiðis hefur Samfylkingin rétt úr kútnum, Sjálfstæðisflokkurinn rokkar á milli 22% og 25%, Píratar eru ýmist um eða undir 11%, Miðflokkurinn sækir í sig veðrið í nýjustu könnun Fréttablaðsins með um 9%, en var langt frá því að ná inn manni á þing í könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið fyrir helgi.

Stóru tíðindin í könnununum virðast þó vera þau að tveir þriggja ríkisstjórnarflokka Bjarna Benediktssonar, þ.e. Viðreisn og Björt framtíð, eru ýmist á mörkum þess að þurrkast út af Alþingi eða þeir þurrkast út í kosningunum 28. október nk.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, segir að ekki sé tímabært að lýsa yfir dauða Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.

Mæling innan skekkjumarka

„Reyndar voru Björt framtíð og Viðreisn mjög nálægt því að vera inni, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar á laugardag og segja má að sú mæling hafi verið innan skekkjumarka, þó báðir flokkar hafi mælst neðan við 5%,“ sagði Grétar Þór í samtali við Morgunblaðið í gær.

Aðspurður hvað hann telji að valdi hruni á fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, sagði Grétar Þór: „Yfirleitt er það þannig að litlir flokkar sem fara með stórum flokki í ríkisstjórn, ekki síst Sjálfstæðisflokknum, hafa ekki unnið mikið fylgi á því. Hjá Bjartri framtíð var það líka þannig að þátttaka flokksins í ríkisstjórn var miklu umdeildari heldur en innan Viðreisnar.“

Grétar telur alveg mögulegt að ákveðið fylgi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sé að fara aftur til baka yfir á Samfylkinguna.

„Allt getur þetta breyst á næstu vikum, en meginlínurnar núna eru þessar: Það eru tveir turnar uppi, VG og Sjálfstæðisflokkur, og svo eru hinir, misstórir þó, í neðri deildinni. Ég ætla ekki að kveða upp dauðadóm yfir Viðreisn og Bjartri framtíð að sinni. Flokkarnir gætu enn kraflað sig yfir fimm prósentin,“ sagði Grétar Þór.

Þurfum að spýta í lófana

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, 4. þingmaður Suðvesturkjördæmis og starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var í gær spurð um skýringar á því að fylgi Viðreisnar hrynur samkvæmt könnunum: „Ég ætla rétt að vona að þetta verði ekki niðurstaðan í kosningunum. Þetta þýðir það að við þurfum að spýta í lófana. Við erum að berjast fyrir því að framsýn viðhorf hljóti hljómgrunn og nái fótfestu. Það er ljóst samkvæmt því sem verið er að ræða núna að það verða ekki margir tilbúnir til þess að ráðast í kerfisbreytingar og aðra þýðingarmikla hluti. Ég óttast að það verði frekar reynt að setja pottlok yfir ýmsa erfiða hluti í samfélaginu. Fyrst og síðast skiptir okkur í Viðreisn máli að tala fyrir okkar stefnu og vera samkvæm sjálfum okkur,“ sagði Þorgerður Katrín.

Oft séð lágar tölur

Valgerður Björk Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar, sem jafnframt skipar 3. sæti framboðslista flokksins í Suðurkjördæmi, sagðist ekki óttast niðurstöður skoðanakannana í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Miðað við fyrri reynslu, þá höfum við í Bjartri framtíð ekki miklar áhyggjur af skoðanakönnunum. Við höfum setið á Alþingi síðan 2013 og höfum fengið alls konar niðurstöður úr skoðanakönnunum og oft séð lágar tölur, sem við værum vissulega til í að sjá hærri, en við látum þetta ekkert á okkur fá.

Við vorum að mælast með 2-3% nokkrum vikum fyrir kosningarnar í fyrra, en fengum svo 7,2% í kosningunum. Við spyrjum bara að leikslokum,“ sagði Valgerður Björk Pálsdóttir.