Telur sig hafa svarað öllu

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Hanna

„Ég tel að ég hafi svarað öllu sem hefur verið beint að mér,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í þættinum Víglínunni á Stöð tvö, spurður um umfjöllun Stundarinnar um að hann hafi selt eign­ir í Sjóði 9 rétt fyr­ir hrun og hafi haft inn­herja­upp­lýs­ing­ar úr Glitni.

Í viðtalinu dró hann upp forsíðu Morgunblaðsins frá 30. september 2008 og vísaði til þess að hrun á fjármálamörkuðum hafi blasað við. Hann vísaði því á bug að hafa haft inn­herja­upp­lýs­ing­ar á þessum tíma um stöðu bankans og nýtt sér þær sér í vil. 

Bjarni sat í efnahags- og skattanefnd Alþingis á þessum tíma og segir málefni bankanna hafi ekki verið til umræðu á þeim fundi. Hann sagði jafnframt margt í umfjöllun Stundarinnar ekki rétt. 

Fíllinn í stofunni

Heimir Már Pétursson, þáttastjórnandi Víglínunnar, spurði Bjarna út í fílinn í stofunni sem væru þingmenn með tengsl í viðskiptalífið. Bjarni ítrekaði að hann teldi „eðlilegt að hafa allt uppi á borðinu“ og vísaði til þess að hann hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að hafa persónulega ekki nein tengsl inn í í viðskiptalífið með beinum hætti eftir að hann ákvað að hella sér út í stjórnmálin. Hann hafi selt öll hlutabréfin sín og sagt sig úr stjórnum þeirra fyrirtækja sem hann átti sæti í. 

Hann vísaði í mikilvægi þess að hagsmunaskráning þingmanna væri í lagi og benti á að breytingar hafa verið gerðar til batnaðar í þeim efnum. Sjálfur hefði hann viljað breyta þeim enn meira frekar í þá átt að hafa þær nákvæmari. 

Í þessu samhengi benti Bjarni á mikilvægi þess að það fólk sem sæti á þingi hefði fjölbreytta reynslu og væri reynsla úr viðskiptalífinu ekki undanskilin því, ekki frekar en bændur, sjómenn og útgerðarmenn.

Fjárlagafrumvarpið ekki í uppnámi

Spurður út í umræðuna um fjárlagafrumvarpið sem aldrei fór fram og hvort meirihluti hefði verið fyrir því, telur Bjarni að svo hefði orðið. Hann sagði aftur á móti að „of mikil tekjuöflun væri í búningi kerfisbreytinga“. Hann vísaði til fyrirhugaðra hækkana á dísilsolíu. „Mér finnst of mikil 20 kr. hækkun á dísilolíu,“ sagði Bjarni en ítrekaði að fjárlagafrumvarpið hafi ekki verið í uppnámi vegna þess. 

Bjarni var spurður hvort hann gæti farið í samstarf með Miðflokknum undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra. Kvaðst Bjarni geta unnið með öllum. „En ég fer ekki inn í kosningar með fyrirframgefið að vinna ekki með þessum eða hinum.“

Spurður út í minna fylgi við flokkinn í nýjustu skoðanakönnunum vísaði Bjarni til þess að það væri upplausn í íslenskum stjórnmálum. „Við eigum mikið inni og eigum ekki eftir að enda á þessum slóðum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert