Falsaðar undirskriftir hjá Miðflokknum

Frá stofnfundi Miðflokksins.
Frá stofnfundi Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjö undirskriftir á einu meðmælendablaði sem skilað var inn fyrir Miðflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður voru falsaðar. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu flokksins. Þar kemur einnig fram að málinu hafi verið vísað til lögreglu, líkt og kom einnig fram í tilkynningu frá yfirkjörstjórnum í Reykjavíkurkjördæmunum í dag.

Að öðru leyti voru ekki gerðar athugsemdir við undirskriftir meðmælenda á meðmælendalistum Miðflokksins og framboð í báðum Reykjavíkurkjördæmunum því fullgild og samþykkt. Í tilkynningu yfirkjörstjórnar frá því í dag segir að lágmarksfjölda undirskrifta hafi verið náð, þrátt fyrir fölsuðu undirskriftirnar og því hafi þetta ekki haft áhrif á framboðið.

mbl.is