Tveir milljarðar í „köld svæði“

Pawel Bartoszek, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn ...
Pawel Bartoszek, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson á fundi fyrr í vikunni. mbl.is/Árni Sæberg

Flugvélaeldsneyti á að kosta það sama um allt land til að tryggja að flugfélög geti flogið beint á flugvelli hvert sem er á landinu. Þetta var meðal þess sem Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra kynnti á kosningafundi Viðreisnar sem haldinn var í kosningamiðstöð flokksins í hádeginu undir yfirskriftinni Sýnum spilin. Aðgerðin er liður í því sem kallað er markaðsátak í ferðaþjónustu fyrir „köld svæði“, þ.e. svæði sem ekki hafa notið góðs af auknum fjölda ferðamanna í samræmi við aðra landshluta.

Í tillögunum kom fram að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur líkt og strætisvagnar og ferjur og verðlag taki mið af því. Alls er áætlað að tveimur milljörðum verði varið í átakið á komandi kjörtímabili til viðbótar við það sem nú er.

Þjóðarsátt um kvennastéttir

Á fundinum kynnti Hanna Katrín Friðriksson þingmaður einnig stefnu flokksins í jafnréttismálum. Fæðingarorlof skuli lengt í 12 mánuði og leitað leiða til að tryggja rétt barns til dagvistunar frá þeim aldri. Þá vill flokkurinn tryggja að Ísland verði í fremstu röð varðandi réttindi hinsegin fólks með auknu samstarfi við Samtökin 78, en sú vinna var þegar hafin í velferðarráðuneytinu í ráðherratíð Þorsteins Víglundssonar. Í skýrslu Evrópusamtaka hinsegin fólks sem kynnt var í vor vermdi Ísland 16. sæti á lista yfir lagaleg réttindi hinsegin fólks.

mbl.is