Vala fer ekki fram

Vala Pálsdóttir.
Vala Pálsdóttir.

Vala Pálsdóttir hefur ákveðið að taka ekki þátt í leiðtogavali Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Vala, sem er formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

„Síðustu dagar hafa verið stórskemmtilegir, eiginlega ótrúlegir. Það hvarflaði ekki að mér að ég ætti svona góðan og víðtækan stuðning í borgarmálin og það úr ólíkum áttum. Það sem meira er, Sjálfstæðisflokkurinn iðar af áhuga og vilja flokksmanna til að bæta borgina okkar. Ég hef hugsað málið mjög vel og hef tekið þá ákvörðun að bjóða mig ekki fram í leiðtogaprófkjörið. Ég er þó mjög þakklát fyrir alla þá hvatningu og stuðning sem ég hef fundið fyrir.

Ég mun halda áfram starfi mínu sem formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, í því mikilvæga hlutverki að hvetja og efla allar þær góðu konur sem starfa fyrir flokkinn um land allt til þátttöku í stjórnmálum,“ skrifar hún á Facebook. 

Frestur til þess að tilkynna um þátttöku í leiðtogavalinu rennur út klukkan fjögur í dag þannig að ekki er útilokað að fleiri bætist í hópinn. Eyþór Laxdal Arnalds og borgarfulltrúarnir Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon hafa tilkynnt framboð en leiðtogakjörið fer fram 27. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert