Vilja sýna frá fundum nefnda og ráða

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ætlar á morgun að mæla fyrir tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að hafinn verði undirbúningur að því að hefja útsendingar frá nefndum og ráðum borgarinnar.

Er þetta gert til að borgarbúar geti fylgst með umræðum þegar mikilvæg málefni eru til umfjöllunar sem varði hagsmuni almennings, að því er kemur fram í tillögunni, sem finna má á vef borgarinnar.

Í tilkynningu vegna málsins segir Marta að hún telji mikilvægt að vinnubrögð borgarinnar verði nútímalegri og ákvörðunarferli mála sýnilegri. „Vissulega þarf að gæta persónuverndarsjónarmiða í einhverjum málum en í stórum hagsmunamálum sem varða almenning allan á stjórnsýslan að vera opin og gagnsæ.“

Á fundinum á morgun ætla fulltrúar Sjálfstæðisflokksins einnig að leggja fram áskorun sem beinist að Alþingi um að sveitarstjórnum verði veitt sjálfdæmi um hvort fjölga eigi borgarfulltrúum eða ekki.

Borgarfulltrúar í Reykjavík eru í dag 15, en miðað við núverandi sveitarstjórnarlög mun þeim fjölga upp í 23 samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert