Heiða fær annað sæti og Skúli það þriðja

Frambjóðendurnir fimm sem fengu bindandi kosningu í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir ...
Frambjóðendurnir fimm sem fengu bindandi kosningu í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. mbl.is/​Hari

Dagur B. Eggertsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir og Hjálmar Sveinsson hlutu bindandi kosningu í fimm efstu sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi borgarstjórnarkosningum.

Kosningu fyrir flokksval Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar lauk um sjöleytið í kvöld og voru úrslit tilkynnt á tíunda tímanum í kvöld.

1.852 félagsmenn neyttu atkvæðisréttar síns og var kjörsókn 33,55%. Er það að sögn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns kjörnefndar betri kjörsókn en fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

„Þetta er hlutfallslega betri kosning en síðast og fleiri sem kusu og meiri stuðningur við forystumanninn okkar en síðast, þó hann hafi líka hlotið góðan stuðning þá,“ segir Sigríður Ingibjörg.  Auð og ógild atkvæði voru 7.

Atkvæði í fimm efstu sæti féllu þannig:

  1. sæti - Dagur B. Eggertsson með 1610 atkvæði i fyrsta sæti, eða 87%
  2. sæti – Heiða Björg Hilmisdóttir með 1126 atkvæði í fyrsta og annað sæti
  3. sæti – Skúli Helgason með 708 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti
  4. sæti - Kristín Soffía Jónsdóttir með 732 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti
  5. sæti – Hjálmar Sveinsson með 779 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti

14 voru í framboði og samkvæmt reglum um flokksvalið áttu kjósendur að greiða 8 til 10 frambjóðendum atkvæði. Niðurstaðan er bindandi fyrir efstu fimm sætin. 

mbl.is