Forgangsmál að bæta velferð almennings

Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður og Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður og Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Forgangsmál Samfylkingarinnar er að bæta velferð og kjör alls almennings að því er segir í stjórnmálaályktun flokksins eftir landsfund hans sem lauk í gær. Styðja þurfi betur við bakið á barnafjölskyldum, hækka barnabætur, lengja fæðingarorlof og tryggja að öll börn eigi kost á leikskólaþjónustu. Þá vilji flokkurinn auka stuðning við öryrkja og aldraða og afnema krónu á móti krónu skerðingar í almannatryggingakerfinu.

Fram kemur einnig í ályktuninni að Samfylkingin vilji auka húsnæðisstuðning bæði til þeirra sem leigja og þeirra sem eiga húsnæði en glími við allt of háa vexti og verðtryggingu. Byggja þurfi strax þúsundir leiguíbúða í félögum sem starfi án hagnaðarsjónarmiða. Forsenda öflugs velferðarkerfis sé kröftugt og frjálst atvinnulíf sem byggi á nýsköpun og góðri menntun. Atvinnulífið þurfi að búa við öruggt rekstrarumhverfi og stöðugan gjaldmiðil.

„Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að þúsundir barna búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum og vaxandi hópur hefur ekki efni á að leita sér lækninga. Hvert barn sem býr við skort er einu barni of mikið. Í jafn ríku þjóðfélagi og Íslandi á enginn að þurfa að búa í fátækt.“

Enn fremur segir að Samfylkingin vilji byggja upp fjölmenningarsamfélag á Íslandi. „Við viljum að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flóttamönnum og vandi betur móttöku á fólki sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Við viljum virða mannréttindi allra og höfnum alfarið þeirri brotastarfsemi, sem er alltof algeng hér á landi þegar fólki eru borguð laun undir lágmarkslaunum og brotið á öðrum réttindum þeirra [sic].“

Menntastefna 21. aldarinnar þurfi að byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun, leggja þurfi áherslu á fjölbreytta nýtingu upplýsingatækni og efla list- og verknám til að mæta fjölbreytileika nemendahópsins. Ríki og sveitarfélög þurfi að taka höndum saman um að fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám og störf í velferðarþjónustunni. Með nýrri tækni skapist tækifæri til þess að auka verðmætasköpun og umhverfisvernd.

Varðandi sveitarstjórnarmálin segir að reynslan sýni að því nær íbúum sem þjónustan er, því betri sé hún. „En það er ekki endalaust hægt að flytja verkefni til sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi og á þessu er því miður brotalöm. Meðal brýnustu verkefna Alþingis er að endurskoða skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum stærri hlut til að standa straum af vaxandi kostnaði við rekstur almannaþjónustunnar.“

Mikilvægt sé að Samfylkingunni gangi vel um allt land í kosningum í vor. „Í þeim kappleik munu takast á framtíðin og fortíðin, jafnaðarmenn sem vilja tryggja framgang nauðsynlegra umbótamála og öfl afturhalds sem munu standa í vegi fyrir breytingum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina