Mosfellsbær vex í allar áttir

Í Mosfellsbæ búa nú rúmlega 10.500 manns. Íbúum fjölgaði um …
Í Mosfellsbæ búa nú rúmlega 10.500 manns. Íbúum fjölgaði um 16,9% á kjörtímabilinu. Gert er ráð fyrir að í árslok 2024 búi 13.500 íbúar í bænum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikill uppgangur hefur verið í Mosfellsbæ síðustu árin. Þar búa nú rúmlega 10.500 manns, en íbúum hefur fjölgað um 16,9 prósent á kjörtímabilinu, hraðar en í nokkru öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi vexti og að í lok árs 2024 búi 13.500 í bænum

Átta framboð eru til bæjarstjórnar í Mosfellsbæ þetta árið. Sjálfstæðismenn hafa ráðið lögum og lofum í bænum frá árinu 2002 og átt bæjarstjórann síðan. Þrátt fyrir að vera með hreinan meirihluta í bæjarstjórn, fimm menn af níu, er flokkurinn í meirihlutasamstarfi með Vinstri grænum sem eiga einn fulltrúa.

Flokkarnir átta sem bjóða fram nú eru Framsóknarflokkur, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, framboð Íbúahreyfingarinnar og Pírata, Vinir Mosfellsbæjar, Miðflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri græn.

Líney Ólafsdóttir, aðstoðarskólastjóri Leirvogstunguskóla.
Líney Ólafsdóttir, aðstoðarskólastjóri Leirvogstunguskóla. Ljósmynd/Aðsend

Þó bæjarbúum hafi fjölgað mikið að undanförnu er nægt rými til áframhaldandi uppbyggingar. Mosfellsbær er næststærsta sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins að flatarmáli, um 194 ferkílómetrar, og þeirra dreifbýlast.

Skipulag í sérflokki

Bærinn býr að miklu byggingarlandi. Samkvæmt aðalskipulagi bæjarins, sem gildir til ársins 2030, eru þéttbýlismörk skilgreind frá Leirvogsá að bæjarmörkunum við Reykjavík, en landsvæðið þar á milli er að miklu leyti óbyggt.

Í aðalskipulaginu segir að lögð skuli áhersla á sérstöðu og sjálfstæði Mosfellsbæjar með góðum tengslum við aðliggjandi útivistarsvæði og náttúru. Bærinn verði áfram útivistarbær þar sem íbúar eru í snertingu við náttúruna á auðveldan og fjölbreyttan hátt.

Ný hverfi hafa sprottið upp í útjaðri bæjarins. Leirvogstunga og Helgafellsland eru meðal þeirra nýjustu og teygja þau sig enn lengra frá höfuðborginni en bæjarkjarninn. Segja má að stefna bæjaryfirvalda í skipulagsmálum gangi að einhverju leyti þvert á ríkjandi strauma í skipulagsmálum nágrannasveitarfélaga þar sem áhersla er á þéttari byggð með þjónustu í göngufæri.

Gljúfrasteinn, hús Halldórs Laxness, er eitt helsta kennileiti Mosfellsbæjar.
Gljúfrasteinn, hús Halldórs Laxness, er eitt helsta kennileiti Mosfellsbæjar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Leikskólamál eru fyrirferðarmikil í sveitarstjórnarkosningum og þar er Mosfellsbær engin undantekning. Í bænum eru sjö leikskólar, sá nýjasti Leirvogstunguskóli en hann var opnaður árið 2011 og eru 70 börn í skólanum. Líney Ólafsdóttir er aðstoðarleikskólastjóri Leirvogstunguskóla. Hún segir það sína tilfinningu að skólamál hafi aldrei verið jafnfyrirferðarmikil í umræðunni og um þessar mundir. Helstu áskoranir sem leikskólinn stendur frammi fyrir séu þær sömu og víðast annars staðar.

„Það er engin launung að það er erfitt að fá leikskólakennara til starfa,“ segir Líney. Sex útskrifaðir leikskólakennarar vinna í skólanum en flestir starfsmenn eru ófaglærðir. Líney segir skólastjórnendur þó meta starfsmenn mikils. „Fólk sem ræður sig til starfa á leikskóla ræður sig af einskærum áhuga og hugsjón. Það er ekki gróðavonin sem heldur í það.“

Hún segir mestu skipta að laun kennara séu hækkuð. „Þannig löðum við að starfsfólk.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert