Ekkert kosningakaffi en kökur í boði hreppsnefndar

Persónukjör er í Fljótsdal og því voru engin framboð með ...
Persónukjör er í Fljótsdal og því voru engin framboð með kosningakaffi. Þess í stað bauð hreppsnefndin upp á kökur á kjörstað. mbl.is/Gunnar Gunnarsson

Kjörfundi er lokið í Fljótsdalshreppi. Kosið var í félagsheimilinu Végarði en lokatölur um kjörsókn liggja ekki fyrir. Klukkan fjögur mældist kjörsókn rúm 40%. Kjörstað var lokað klukkan sex. 

61 er á kjörskrá og þegar fréttaritara Morgunblaðsins á Austurlandi bar að garði við upphaf kjörfundar biðu níu kjósendur eftir að kjósa, eða 15% þeirra sem eru á kjörskrá. Þá er ótalinn einn sem var inni í kjörklefanum (það er bara einn í einu) og svo er þriggja manna kjörstjórn þannig að býsna hátt hlutfall kjörgengra voru í húsi.

Óhlutbundin kosning er í Fljótsdal, þar eru því allir í kjöri, utan Þorvarðar Ingimarssonar á Eyrarlandi sem baðst undan setu eftir 20 ár í sveitarstjórn.

Því eru engin framboð og engir listar með kosningakaffi en þess í stað býður hreppsnefndin upp á kökur á kjörstað. Lítið var um pólitískar umræður á staðnum, meira var rætt um sauðburðinn sem er langt kominn í sveitinni.

mbl.is