Stefnumálin liggi vel með Viðreisn

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík heldur sína kosningavöku á Grand Hótel.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík heldur sína kosningavöku á Grand Hótel. mbl.is/Árni Sæberg

Almenn kátína ríkir á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem fram fer á Grand Hótel. Gamanið kárnaði þó ögn er aðrar tölur úr borginni birtust, en samkvæmt þeim verða borgarfulltrúar flokksins sjö, en ekki átta eins og fyrstu tölur bentu til.

„Það er búið að telja minna en helming atkvæða og eins og Bjarni [Benediktsson, formaður flokksins] benti á áðan þá er þetta svo breytilegt eftir hverfum að það þarf ekki meira en einn, tvo kassa úr ákveðnum hverfi til að tölurnar breytist hratt, til eða frá,“ segir Jórunn Pála Jónasdóttir, sem var á 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar.

Hún segist telja góðan möguleika á að Sjálfstæðisflokkurinn nái að koma að nýjum meirihluta í borginni.

„Okkar stefnumál liggja vel með t.d. Viðreisnar stefnumálum. Þau hafa talað fyrir úthverfunum og í síðustu viku komu þau fram með ný loforð um að standa með úthverfunum og við höfum verið að tala um að borgarfulltrúar eigi að gæta hagsmuna allra Reykvíkinga jafnt,“ segir Jórunn sem er úr Breiðholti og telur fókusinn hafa verið „aðeins vestar í borginni síðustu ár.“

„Það þarf að skoða Reykjavík meira sem eina heild,“ segir Jórunn Pála.

Jórunn Pála Jónasdóttir sat í 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins ...
Jórunn Pála Jónasdóttir sat í 9. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í borginni. Ljósmynd/Haakon Broder Lund
mbl.is