Vonast eftir tölum innan klukkutíma

Eva B. Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, rauf innsigli að ...
Eva B. Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, rauf innsigli að talningarherberginu um tíuleytið í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Talning í Reykjavík gengur vel, að sögn Evu B. Helgadóttur, formanns yfirkjörstjórnar. Hún vonast til að nýjar tölur verði kynntar innan klukkustundar, en þorir ekki að lofa neinu.

Talning hefur verið á svipuðu róli og í síðustu kosningum. „Við kynntum aðrar tölur korteri seinna en við gerðum fyrir fjórum árum. Mér finnst það bara nokkuð gott þegar haft er í huga hve mörg framboðin eru,“ segir Eva.

Klukkan tíu spáði Eva því við blaðamann að kjörsókn, að utankjörfundaratkvæðum undanskildum, yrði 58%, en hún reyndist ívið betri eða 59,1%. Er það fimm prósentustigum betra en í síðustu borgarstjórnarkosningum.

Eva segir enn unnið að því að flokka atkvæði. Talning muni standa fram eftir nóttu, en hún treystir sér ekki til að segja til um hvenær von er á lokatölum. Fyrir fjórum árum komu þær ekki fyrr en hálfátta um morgun, en tafir urðu á talningu þá vegna innsláttarvillu talningarmanns. Þá var formaður yfirkjörstjórnar Tómas Hrafn Sveinsson og fékk hann viðurnefnið Talningar-Tómas á samfélagsmiðlum.

mbl.is