Fá skráargat til að kíkja í gegnum

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarstjórnarfulltrúi Sósíalistaflokksins.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarstjórnarfulltrúi Sósíalistaflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, gagnrýnir harðlega að þeir flokkar sem segjast standa fyrir gagnsæi og auknu lýðræði skuli standa að stórskerðingu á aðgengi kjörinna fulltrúa að stjórnkerfi borgarinnar. Þar vitnar hún í breytingar sem gerðar voru á samþykktum borgarstjórnar í apríl síðastliðnum, en í kjölfar þeirra hafa minni borgarstjórnarflokkar aðeins aðgengi að fjórum af um tuttugu ráðum og nefndum borgarkerfisins.

Með nýju breytingunum segja sósíalistar aðgengi minni borgarstjórnarflokka að stjórnkerfi borgarinnar stórlega takmarkað, að því er fram kemur í tilkynningu frá flokknum. Fyrir breytingarnar höfðu fámennir borgarstjórnarflokkar rétt á áheyrnarfulltrúum í fjölmörg ráð og nefndir, eða um tuttugu talsins. Eftir breytingarnar býðst þeim aðeins að hafa áheyrnarrétt í tveimur ráðum: borgarráði og skipulags- og samgönguráði.

Að óbreyttu fá minnstu flokkarnir aðeins setu í tveimur ráðum og áheyrn í tveimur til viðbótar, eða aðkomu af fjórum af um tuttugu mikilvægum ráðum og nefndum borgarkerfisins. „Við fáum aðeins takmarkaðan aðgang að stjórnkerfinu, þátttöku í litlum hluta þess en að öðru leyti bara skráargat að kíkja í gegnum, aðgengi að samþykktum mála eftir að þau hafa verið afgreidd,“ segir Daníel Örn Arnarson, varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.

Á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar hyggjast sósíalistar leggja fram tillögu um að vinda ofan af þeirri ákvörðun sem tekin var í apríl og í tilkynningunni segir að allir minnihlutaflokkarnir hafi lýst yfir stuðningi við slíka breytingu.

Daníel segir að um aðför stærri flokkanna að lýðræðinu sé að ræða. Í tilkynningunni er reiknireglan sem notast er við í kosningum og hyglir stærri flokkum á kostnað hinna minni gagnrýnd, sem og gríðarlegur fjáraustur úr ríkis- og borgarsjóði til stjórnmálaflokkanna.

Sanna segir þá stöðu sem litlu flokkarnir eru settir í fáránlega, en eins og skrifstofa borgarstjórnar túlkar samþykktir og sveitarstjórnarlög geta Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins boðið fram saman og tryggt sér eitt sæti í hverju sjö manna ráði, en með því afsala þeir sér rétti sínum sem áheyrnarfulltrúar í ráðunum. Tilkynningu Sósíalistaflokksins má lesa í heild sinni á vefsíðu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert