Staðfesta ekki fullnægjandi meðferð kjörgagna

Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, las upp bókun landskjörstjórnar að loknum fundi hennar þar sem kom fram að ekki hafi borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis um að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi.

Þetta segir á vef Ríkisútvarpsins. Samkvæmt þeirra heimildum hefur landskjörstjórn aldrei áður gefið slíka yfirlýsingu út eftir þingkosningar.

Boltinn hjá alþingi

Kveðið er á í 46. grein stjórnarskrárinnar að alþingi skeri úr um það hvort þingmenn séu löglega kosnir. Talið er að landskjörstjórn sé með bókuninni að vísa því til alþingis hvort skortur á staðfestingunni sé næg ástæða til þess að ógilda kosninguna í Norðvesturkjördæmi.

Það myndi þýða að nauðsynlegt væri að boða til uppkosningar í kjördæminu.

Kristín segir í samtali við mbl.is að hún hafi ekkert meira um málið að segja annað en að boltinn væri hjá alþingi.

mbl.is