Ragnar vill fyrsta sætið í Fjarðabyggð

Ragnar Sigurðsson, varaþingmaður og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.
Ragnar Sigurðsson, varaþingmaður og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.

Ragnar Sigurðsson, varaþingmaður og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð, gefur kost á sér í 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð í prófkjöri flokksins sem fer fram í lok febrúar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ragnari. 

Hann er fertugur lögfræðingur með meistaragráðu í forystu og stjórnun. 

Ragnar starfar sem framkvæmdastjóri hjá RAUST ehf. en áður gegndi hann starfi framkvæmdastjóra hjúkrunarheimila Fjarðabyggðar. Þá var hann til þriggja ára ritstjóri Austurgluggans.

Ragnar hefur verið virkur í bæjarmálum Fjarðabyggðar á undanförnum árum og verið aðalmaður í bæjarstjórn frá 2019 og einnig setið í bæjarráði frá 2020.

Ragnar leggur áherslu á ábyrgð í rekstri sveitarfélagsins þannig að því sé gert kleift að byggja upp til framtíðar án frekari skuldsetningar. Hann er talsmaður bættra samgangna þar sem höfuðáhersla hans er á uppbyggingu Suðurfjarðarvegar sem forgangsframkvæmd í samgöngumálum fjórðungsins.

Í tilkynningunni segir  Ragnar mikilvægt að halda áfram að stuðla að frekari uppbyggingu atvinnulífsins sem er forsenda áframhaldandi fjölgunar íbúa og bættrar þjónustu. „Mikilvægt er að lækka álögur á lítil og meðalstór fyrirtæki og gera þeim kleift að vaxa enn frekar samhliða kröftugri uppbyggingu atvinnulífs í Fjarðabyggð.“

Þá telur Ragnar það miklu skipta að „auka samvinnu innan samfélagsins í Fjarðabyggð á vettvangi atvinnulífsins, menningarmála, æskulýðsstarfs og íþróttamála.“

Þá eru málefni eldri borgara Ragnari hugleikin en þörf er á fjölbreyttari úrræðum fyrir eldra fólk í Fjarðabyggð, bæði búsetukosti og úrræða á borð við dagþjónustu eldri borgara.

mbl.is