Líf vill leiða lista VG í vor

Líf Magneudóttir er grunnskólakennari, oddviti og borgarfulltrúi Vinstri grænna í …
Líf Magneudóttir er grunnskólakennari, oddviti og borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík, formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs, formaður stjórnar Sorpu bs., varaformaður borgarráðs og fulltrúi í menningar- íþrótta- og tómstundaráði. Ljósmynd/Aðsend

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, vill leiða lista VG í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram í vor. 

„Ég brenn fyrir borgarsamfélagið og hvernig við byggjum Reykjavík til framtíðar. Ég brenn fyrir því stóra verkefni að skapa lífvænlega borg fyrir okkur öll og náttúruna sem umlykur okkur. Síðustu fjögur ár hafa verið krefjandi á margan hátt, ekki síst vegna heimsfaraldursins og afleiðinga hans en þau hafa líka verið gjöful og lærdómsrík og framundan er mikill uppskerutími,“ segir í tilkynningu frá Líf.

Hún segir frá því að hún hafi farið fyrir mörgum stórum framfaramálum á þessum tíma enda hafi allmörg stefnumál Vinstri grænna ratað nær orðrétt inn í meirihlutasáttmálann sem var gerður með þremur öðrum flokkum eftir síðustu kosningar. 

„Meirihlutasamstarf Vinstri grænna við þrjá aðra flokka í borginni hefur gengið nokkuð vel. Hins vegar höfum við einnig þurft að gera málamiðlanir eins og gengur og gerist á stóru heimili. Eins og áður er talið er ég afar stolt af mörgum verkum okkar og ber þau keik undir dóm kjósenda í vor. Aftur á móti eru líka mál sem ég hefði viljað sjá þróast á annan máta og hyggst ég leggja meiri áherslu á þau á næsta kjörtímabili. Vil ég þar nefna menntamálin og umgjörð þeirra, viðhaldsmál húsnæðis, fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks, fyrirkomulag borgaralýðræðis og að gerðar séu enn meiri kröfur í hönnun borgarinnar m.t.t almannarýma og fagurfræði. Eins mun ég beita mér fyrir enn fleiri breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur til auka rými fyrir vistvæna ferðamáta og fletta upp malbiki. Þá vil ég fella út fyrirhuguð göng í gegnum Öskjuhlíð og gera mislæg gatnamót víkjandi í skipulaginu,“ segir Líf einnig í tilkynningunni. 

„Við í Vinstri grænum höfum líka slegið tóninn í baráttunni gegn útvistun grunnþjónustu og einkavæðingar í almannaþjónustu og snúið þeirri vegferð við þar sem því var viðkomið. Enn og aftur eru uppi raddir um að auka við rekstur einkarekinna skóla og sölu á mikilvægum fyrirtæjum sem sinna grunnþjónustu, líkt og Gagnaveitu Reykjavíkur. Það hefur margsýnt sig að á slíku tapar samfélagið til lengri tíma litið. Ég hef staðið fast gegn því og mun halda áfram að spyrna við einkavæðingu grunnþjónustu. Því er mikilvægt að Vinstri græn hafi sterka rödd í næstu borgarstjórn,“ segir hún.

„Við Vinstri græn færum til mörkin í pólitískri umræðu, tölum fyrir framsæknum og lítið kynntum hugmyndum og sýnum í verki að hugmyndafræði okkar og sannfæring er hreyfiafl samfélagslegrar velferðar. Þannig höfum við innleitt margvísleg umbótamál, unnið nýstárlegum hugmyndum brautargengi og verið mikilvægt pólitískt afl fyrir manneskjulegar og umhverfisvænar samfélagsbreytingar. Það er t.d. enn skoðun mín og okkar Vinstri grænna að menntun barna eigi að vera gjaldfrjáls. Á meðan það er ekki stefna annarra flokka höldum við samt ótrauð áfram að lækka álögur á fjölskyldur barna. Því þannig gerum við – við færum mörkin til í pólitískri umræðu þar til við róum öll í sömu átt í átt að góðum málum,“ segir Líf ennfremur í tilkynningunni. 

mbl.is