Lokuðu í hálftíma og fólk fór án þess að kjósa

Atvikið átti sér stað á kjörstað í Borgarskóla.
Atvikið átti sér stað á kjörstað í Borgarskóla. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Kjördeild þrjú í Borgarskóla var lokað í um hálftíma laust eftir klukkan þrjú í dag að sögn sjónarvotta. Löng röð myndaðist og ákváðu sumir að fara án þess að greiða atkvæði sín. Að sögn formanns yfirkjörstjórnar reyna kjörstjórnir alltaf að hafa biðtímann sem stystan en að hálftíma bið sé ekki talin óásættanleg.

„Það var fólk sem fór í burtu og sagðist bara ekki hafa tíma til þess að bíða,“ segir Sæmundur Þórarinsson, einn af þeim sem beið í umræddri röð.

Eva Bryndís Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að það sé ekki óeðlilegt að loka þurfi kjördeildum við og við ef stemma þarf bókhaldið af en að yfirleitt taki það ekki langan tíma.

„Það kemur reglulega upp að það þurfi að stemma af. Þau eru þrjú og þau þurfa að stemma af. Ef hökin passa ekki hjá þeim hvetjum við þau til þess að stemma af og ef þarf að loka á meðan svo að villan magnist ekki upp. Þannig er auðveldara að halda öllu hreinu í bókhaldinu,“ segir Eva. 

Hér erum við kjósendur mjög góðu vön“

„Eins og við þekkjum í útlöndum stendur fólk klukkutímum saman í röð á meðan það bíður eftir því að kjósa. Hér erum við kjósendur mjög góðu vön.“

Eva segir búið að taka stöðuna og að kjördeildin hafi verið opnuð aftur.

Þið teljið þessa hálftíma bið ekki óásættanlega?

„Nei. Það getur alveg komið fyrir en við reynum að láta það ekki koma fyrir. Við reynum að bjóða fólki sæti á meðan það bíður, kaffibolla jafnvel ef það kemur fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina