„Ekki gert af einskærri umhyggju fyrir Viðreisn“

Pawel Bartoszek, sem féll úr sæti borgarfulltrúa í sveitarstjórnarkosningunum um liðna helgi, segir koma til greina fyrir Viðreisn að vinna til hægri eða vinstri.

Þetta segir Pawel í hressilegu spjalli í Dagmálum þar sem hann er gestur ásamt Katrínu Atladóttur, fráfarandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir að Viðreisn hafi styrkt stöðu sína í meirihlutaviðræðum sem nú eru að taka á sig mynd, með því að efna til viðræðubandalags með Samfylkingu og Pírötum. Hann hafnar því að það útiloki möguleikann á því að vinna til hægri.

Þá bendir hann á að flokknum hafi tekist, þrátt fyrir nokkuð harða útreið í kosningunum, að gera sig gildandi í meirihlutaviðræðum. Flokkarnir, jafnt til vinstri og hægri, biðli nú til þeirra um samstarf. Þá sé markmiðinu náð, þ.e. að vinna að því verki að koma Viðreisn í meirihluta og hafa áhrif á borgarmálin með þeim hætti.

Þegar þáttastjórnendur, auk Katrínar, spyrja hvort ekki sé hyggilegra fyrir Viðreisn að horfa til hægri í ljósi niðurstöðu kosninganna, bendir Pawel á að slík ráð séu ekki borin fram af „einskærri umhyggju fyrir Viðreisn.“

Þáttinn má í heild sinni sjá hér:

mbl.is