Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar hefur samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa að endurráða Fannar Jónasson í starf bæjarstjóra til næstu fjögurra ára.
Fannar tók við sem bæjarstjóri árið 2017 og var endurráðinn í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2018. Hann er viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði (Cand Oecon) frá Háskóla Íslands og er einnig með MBA-gráðu þaðan, að því er segir í tilkynningu.
Fannar bjó ásamt fjölskyldu sinni á Hellu fram til ársins 2001 og rak þar viðskiptaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Jafnframt sinnti hann sveitarstjórnarmálum af ýmsum toga um 20 ára skeið og var meðal annars oddviti sveitarstjórnar Rangárvallahrepps.
Fjölskyldan flutti á höfuðborgarsvæðið árið 2001 þar sem Fannar vann meðal annars hjá Arion banka og forverum hans og þá lengst af sem útibússtjóri. Eiginkona hans er Hrafnhildur Kristjánsdóttir viðskiptafræðingur og eiga þau þrjú börn.