Tæpur þriðjungur ánægður með forsetann

Mikil ánægja er með störf Jóhönnu Sigurðardóttur en minni með …
Mikil ánægja er með störf Jóhönnu Sigurðardóttur en minni með störf Ólafs Ragnars Grímssonar. mbl.is/Ómar

Innan við þriðjungur landsmanna, 31%, er ánægður með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup, sem sagt var frá í fréttum Ríkisútvarpsins.  65% landsmanna segjast vera ánægð með störf Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

Fyrir ári voru 87% landsmanna ánægð með störf forseta Íslands, að því er kom fram í sömu könnun.  Nú eru 46% óánægð með  forsetann og tæpur fjórðungur hvorki ánægður né óánægður.

Í könnuninni nú sögðust 65% landsmanna vera ánægð með störf Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Mest óánægja er með störf Kolbrúnar Halldórsdóttir umhverfisráðherra. 48% eru óánægð með störf hennar en 14% ánægð.

Næst mest ánægja er með Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra en 59% eru ánægð með störf hans. Helmingur þátttakenda sagðist ánægður með störf Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, og Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra. 45% eru ánægð með Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, 40% með Ögmund Jónasson heilbrigðisráðherra og  29% með Ástu R. Jóhannesdóttur félagsmálaráðherra.  28% eru ánægð með störf Össurar Skarphéðinssonar utanríkis- og iðnaðarráðherra en 21% með störf Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra.

Lítið traust á stofnunum

Aðeins um 13% landsmanna segjast í Þjóðarpúlsi Gallup bera mikið traust til Alþingis, 11% treysta Seðlabankanum vel og 5% segjast treysta Fjármálaeftirlitinu vel. Um 4% landsmanna segjast bera mikið traust til bankakerfisins og hefur svo lág tala ekki áður birst í birst í Þjóðarpúlsi.

Um 70-80% þátttakenda segjast bera mikið traust til Háskóla Íslands, lögreglunnar og heilbrigðiskerfisins. Þá hefur traustið á borgarstjórn Reykjavíkur tvöfaldast frá síðustu mælingu og fer úr 9% í 18%.

mbl.is