Flóknara að ganga í ESB

Sú niðurstaða að ekki verður gerð breyting á 79. grein stjórnarskrárinnar fyrir þinglok, sem átti að einfalda breytingar á henni, gerir að verkum að ekki verður eins einfalt að ganga í ESB á næsta kjörtímabili. Þetta kom fram í máli Árna Páls Árnasonar Samfylkingu við umræður á Alþingi.

Langar umræður standa nú yfir um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi og er hart deilt. Árni Páll fór hörðum orðum um forystumenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að hafa komið í veg fyrir að stjórnarskrárbreytingarnar næðu fram að ganga og sagði þá ómerkinga orða sinna. Fyrrverandi og núverandi formenn Sjálfstæðisflokksins og varaformaður hans hafi öll gefið fyrirheit fyrr í vetur um stuðning við breytingar á 79. grein stjórnarskrárinnar svo auðveldara yrði að breyta stjórnarskránni. „Öll eru þau orðnir ómerkingar orða sinna. Sjálfstæðisflokkurinn gerir sitt forystufólk að ómerkingum orða sinna og kemur þannig fram að það er greinilega ekkert að marka þau fyrirheit sem gefin eru af forystumönnum flokksins,“ sagði hann.

Sigurður Kári Kristjánsson Sjálfstæðisflokki gagnrýndi ummæli Árna Páls og benti honum m.a. á að sjálfstæðismenn hefðu lagt til strax í upphafi umræðunnar að gerðar yrðu breytingar á 79. grein stjórnarskrárinnar svo hægt væri með auðveldari hætti en nú er að breyta stjórnarskránni.

mbl.is