Jón Gnarr verður borgarstjóri

Dagur B. Eggertsson og Jón Gnarr á þaki Æsufells 4 ...
Dagur B. Eggertsson og Jón Gnarr á þaki Æsufells 4 nú síðdegis. mbl.is/Ómar

Jón Gnarr, leiðtogi Besta flokksins, verður næsti borgarstjóri Reykjavíkur. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi oddvita Besta flokksins og Samfylkingarinnar á þaki fjölbýlishúss við Æsufell 4 í Reykjavík þar sem bróðir Jóns er húsvörður.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, verður formaður borgarráðs.

Jón Gnarr sagði á blaðamannafundinum, að samstarf flokkanna væri enn í vinnslu og ekki fullmótað en engin sérstök ágreiningsmál hefðu komið upp í viðræðunum í vikunni. „Við ætlum að gera þetta eins vel og við getum," sagði Jón.

Sagði hann að næstu tvö ár gætu orðið erfitt fjárhagslega en þau þurfi ekki að verða leiðinleg.

Dagur sagði að nýr meirihluti taki ekki við fyrr en 15. júní. Í næstu viku verði tíminn notaður til að ræða við starfsfólk borgarinnar og fulltrúa annarra flokka og vinna úr tillögum, sem komið hafa inn á vefinn betrireykjavik.is.

„Jón Gnarr verður fyrst og fremst skemmtilegur borgarstjóri," svaraði Jón spurningu blaðamanns.

Dagur sagði að ekki stæði til að hækka útsvar eða aðrar álögur á borgarbúa og reynt yrði að láta það sem gert verður passa við fjárhaginn.

Jón sagði að þ-in þrjú ráði för í málefnavinnunni: menntun, reynsla og áhugi. Dagur upplýsti, að hann hefði ekki haft tíma til að horfa á sjónvarpsþáttinn The Wire og Jón sagði að menn hefðu átt mjög annríkt undanfarna daga.

„Það hefur frekar ríkt kátína, gleði og eftirvænting en ágreiningur," sagði Jón. Hann sagði að þetta væri miklu skemmtilegra en hann hefði ímyndað sér. „Mér finnst starf borgarstjóra mjög spennandi og gott tækifæri til að gera gott."

Jón sagði, að fjölbreyttari afþreyingu þyrfti fyrir fjölskyldur í borginni.

Jón sagði, að Æsufellið hefði verið valið sem staður fyrir blaðamannafundinn til að sýna að þetta verði ekki 101 meirihluti. Bróðir Jóns er húsvörður í húsinu og Dagur upplýsti, að hann hafði hangið utan á húsinu sumarlangt og málað það. 

mbl.is

Bloggað um fréttina