„Vorum komin hálfa leið til himna“

Hildur Þórðardóttir, verslunarstjóri Rúmföt.is, gægist inn um glugga á ítalskri …
Hildur Þórðardóttir, verslunarstjóri Rúmföt.is, gægist inn um glugga á ítalskri rúmfataverslun. Ljósmynd/Björn Þór Heiðdal

Sérverslunin Rúmföt.is er til húsa á Nýbýlavegi 28 í Kópavogi og kappkostar að bjóða viðskiptavinum sínum fjölbreytt úrval af hágæðarúmfötum og lúxusdúnsængum. Eigandi verslunarinnar, Björn Þór Heiðdal, segist vera með rúmfatadellu og velji aðeins það besta.  

Síðastliðið sumar lögðu starfsmenn Rúmföt.is land undir fót og heimsóttu birgja sína í Evrópu. Fyrst var förinni heitið til Þýskalands þar sem einn fremsti vefari Þýskalands var heimsóttur. Síðar hélt ferðalagið áfram til Ítalíu en samkvæmt Birni sérhæfa ítölsk fyrirtæki sig í silki damaski.

Hér eru þau Hildur og Björn að skoða verksmiðjuna OBB. …
Hér eru þau Hildur og Björn að skoða verksmiðjuna OBB. Sumar vélarnar eru á stærð við einbýlishús eins og sjá má. Ljósmynd/Björn Þór Heiðdal

„Við byrjuðum á að heimsækja OBB, 120 ára gamalt fyrirtæki sem framleiðir sængur fyrir okkur. Mikið af tækjunum eru síðan 1948 eða þegar verksmiðjan var endurreist eftir stríð og eru á stærð við einbýlishús. Í nýja hlutanum eru ný tæki af fullkomnustu gerð sem gera framleiðsluna sjálfvirkari,“ segir hann.

„Þessar vélar geta gert alls konar eins og að flokka dún frá fjöðrum. Við kaupum einungis inn 100% dún og þá einna helst snjógæsadún frá Kanada. Hann er sá besti fyrir utan íslenska æðardúninn. Slíkar sængur kosta bílverð en okkar aðeins í kringum 70.000 krónur.“ 

Mikið fyrir peningana 

Rúmföt.is leggur mikið upp úr því að flytja eingöngu inn vörur frá fyrirtækjum sem framleiða vörur sínar sjálf. Þau viðskipti tryggja viðskiptavinum Rúmföt.is enn frekari vörugæði og kostakjör. 

„Flottustu rúmfötin sem hægt er að kaupa í Þýskalandi koma frá Curt Bauer og þangað fórum við í heimsókn. Mörg þýsk vörumerki láta framleiða fyrir sig í Asíu en Curt Bauer framleiðir allt sitt í eigin verksmiðju fyrir utan að spinna bómullina. Hún kemur tilbúin á rúllum frá Egyptalandi og Perú,“ útskýrir Björn og segir fyrirtækið búa yfir mikilli sérstöðu vegna tækjakosts. 

Björn segist hafa fengið ofbirtu í augun af fegurð þegar …
Björn segist hafa fengið ofbirtu í augun af fegurð þegar hann heimsótti verksmiðju þeirra Matteos og Arturos á Ítalíu. Ljósmynd/Björn Þór Heiðdal

„Curt Bauer er með tæki sem „mercera“ bómullina og lita hana þegar búið er að vefa efnið. Nánast öll önnur fyrirtæki í Evrópu úthýsa þessu stigi framleiðslunnar,“ segir Björn.

Frá Þýskalandi lá leiðin til Feneyja en þangað óku þau Björn og samstarfskona hans, Hildur Þórðardóttir, verslunarstjóri Rúmföt.is.

„Við skoðuðum borgina og fundum flotta Frette rúmfatabúð,“ segir Björn en Frette er eitt fremsta rúmfata vörumerkið á Ítalíu og þó víðar væri leitað. 

„Þó svo að Frette sé eitt þekktasta merkið á Ítalíu og í Bandaríkjunum þá framleiða þeir ekki allt sjálfir heldur úthýsa til Asíu. Okkar rúmföt eru úr jafngóðum efnum ef ekki betri,“ segir Björn.

Hjá Rúmföt.is fást gæðasængur og vönduð rúmföt.
Hjá Rúmföt.is fást gæðasængur og vönduð rúmföt. Ljósmynd/Aðsend

Ítölsk lúxusrúmföt 

Björn segir ferðina til Ítalíu hafa verið ævintýralega. Óaðfinnanlegt umhverfi og góður matur hafi staðið upp úr en ekki síður mikilfengleg list og dýrðlegt handbragð á ítölsku vörunum sem voru keyptar.

„Við keyrðum í áttina að Bergamó og fundum gullfallegt hótel við Sebino-vatn, lengst uppi í hlíð með geggjuðu útsýni. Þar var líka einn flottasti veitingastaðurinn á svæðinu og vá, hvað Ítalir gera góðan mat,“ lýsir Björn.

„Dagurinn eftir fór í að heimsækja framleiðendurna Matteo og Arturo. Þeir tóku á móti okkur með kostum og kynjum og handlékum við hágæða silkidamask úr egypskri bómull allan daginn,“ segir Björn. 

Fyrirtækið Curt Bauer býr yfir mikilli sérstöðu vegna tækjakosts sem …
Fyrirtækið Curt Bauer býr yfir mikilli sérstöðu vegna tækjakosts sem getur litað efni. Ljósmynd/Björn Þór Heiðdal

„Þetta var svo flott að við vorum komin hálfa leið til himna. Við sáum gullfalleg satínefni sem gáfu manni ofbirtu í augun.“

Líkt og sjá má á vefsíðu Rúmföt.is er það ekki ofsögum sagt. Þar er að finna mikið úrval af fallegum rúmfötum í öllum stærðum og gerðum í hæsta gæðaflokki. 

„Ferðin endaði í Frankfurt á Heimtextil-sýningunni sem öllu jafna er haldin í janúar, nema í ár vegna heimsfaraldursins. Við hittum marga sölumenn sem reyndu að pranga inn á okkur einhverju sem ekki passaði inn í búðina okkar. Það var sjaldan talað um gæði heldur bara hversu marga gáma við vildum kaupa,“ segir Björn kíminn. 

Hildur í samræðum við duglega sölumenn á Heimtextil-sýningunni.
Hildur í samræðum við duglega sölumenn á Heimtextil-sýningunni. Ljósmynd/Björn Þór Heiðdal


 

mbl.is