Goðsagnakennt skip í brotajárn?

ERLENT  | 17. October | 23:00 
SS United States var hraðskreiðasta og íburðarmesta farþegaskip síns tíma. Meðal þeirra sem fóru með skipinu yfir Atlantshafið voru Marilyn Monroe, Coco Chanel, Marlon Brando og fjórir Bandaríkjaforsetar. En nú má skipið muna fífil sinn fegurri svo ekki sé tekið sterkara til orða.

SS United States var hraðskreiðasta og íburðarmesta farþegaskip síns tíma. Meðal þeirra sem fóru með skipinu yfir Atlantshafið voru Marilyn Monroe, Coco Chanel, Marlon Brando og fjórir Bandaríkjaforsetar. En nú má skipið muna fífil sinn fegurri svo ekki sé meira sagt. 

Það er nú við höfn í Fíladelfíu og verður rifið í brotajárn ef ekki tekst að fjármagna dýrar endurbætur á því. Félag áhugamanna um skipið hefur sent út neyðarkall, SOS: Verði ekki búið að safna nægilegu fé til viðgerðarinnar í lok mánaðarins verður SS United States aðeins til í minningum fólks. 

Skipið fór í sína jómfrúrferð þann 3. júlí árið 1952. Þá fór skipið þvert yfir Atlantshafið á mettíma, aðeins þremur dögum, 10 klukkustundum og 40 mínútum. Metið stendur enn. 

Það var gríðarlega vel tækjum búið á þess tíma mælikvarða og ekkert var til sparað er kom að innréttingum og aðstæðum farþega. Skipið var þannig hannað að hægt væri að breyta því í herskip með einföldum hætti, ef kalda stríðið færi nú algjörlega úr böndunum. Þess vegna var skipið að mestu leyti rekið fyrir fé bandaríska ríkisins. 

Um milljón farþegar nutu þægindanna um borð á þeim árum sem skipið var í rekstri og sigldi milli Ameríku og Evrópu. Til að skemmta farþegum voru þrjár hljómsveitir og tvö kvikmyndahús svo fátt eitt sé nefnt. Tuttugu farþega lyftur voru í skipinu og sundlaug að auki. 

Mona Lisa í sér klefa

Meðal þess sem flutt var með skipinu á sínum tíma var hið ómetanlega málverk Mona Lisa. Hún hafði þá verið til sýnis í listasafninu í Washington. Hún hafði sinn eigin klefa. Fyrir utan hann voru fimmtán skópör og segir sagan að það hafi verið gert til að telja fólki trú um að her manna gætti verksins.

 En þegar flugsamgöngur urðu betri þá var ekki lengur eins mikil þörf fyrir SS United States. Skipið hætti siglingum 11. nóvember árið 1969 en þá hafði það farið í 400 ferðir yfir Atlantshafið. Skipið gat tekið 2.000 farþega og 1.000 áhöfn. 

Skipið gekk kaupum og sölum næstu árin en margir höfðu ýmsar hugmyndir um hvernig væri hægt að nýta það. 

Samtökin sem nú eiga skipið vilja gera það upp. Þau greiða þegar háar fjárhæðir í hverjum mánuði í hafnargjöld. Ágætlega gengur að safna, en betur má ef duga skal. 

 „Við höfum aldrei verið eins nálægt því að bjarga SS United States,“ segir  Susan Gibbs, stjórnarformaður félagsins. En ef ekki tekst að safna verður skipið rifið í brotajárn í lok október. 

Þættir