Hitakassaleiga bjargar hundruðum barna

ERLENT  | 15. maí | 10:55 
Maryamah er agnarsmá en starir út um hitakassann með alltof stóra ullarhúfu á höfðinu. Hún vó aðeins 1,2 kg þegar hún kom í heiminn, fyrir tímann, en nú er hún komin heim og hvílir í lánskassanum á heimili foreldra sinna í borginni Bogor á Jövu.

Maryamah er agnarsmá en starir út um hitakassann með alltof stóra ullarhúfu á höfðinu. Hún vó aðeins 1,2 kg þegar hún kom í heiminn, fyrir tímann, en nú er hún komin heim og hvílir í lánskassanum á heimili foreldra sinna í borginni Bogor á Jövu.

Maryamah er ein hundraða fyrirbura á Indónesíu sem hafa notið góðs af störfum verkfræðiprófessors sem smíðar hitakassa og lánar þá efnalitlum fjölskyldum endurgjaldslaust.

Raldi Artono Koestoer segir almannatryggingakerfið ekki ná til allra en Indónesía er í fimmta sæti ríkja heims þegar kemur að fjölda fyrirburafæðinga. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru vandamál í kjölfar fyrirburafæðinga algengasta dánarorsök barna undir 5 ára.

Fyrirburakassarnir halda hita á börnunum og hjálpa til við að vernda þau frá sýkingum en milljónir manna á Indónesíu, sem lifa við sára fátækt, eiga afar erfitt með að fá þá aðstoð sem þeir þurfa fyrir börnin sín.

Almannatryggingakerfið, sem var kynnt til sögunnar árið 2014, nær í sumum tilfellum til kostnaðar vegna hitakassa en í takmarkaðan tíma. Þær fjölskyldur sem hafa ekki efni á að standa undir kostnaðinum þegar þær hafa fullnýtt tryggingarnar, neyðast til að taka börnin heim og sjá um þau sjálfar.

 

 

Fullkominn árangur

Koestoer, sem starfar við Háskóla Indónesíu rétt fyrir utan Jakarta, hóf hitakassastarfsemina árið 2012. Hann notar sérfræðiþekkingu sína til að hanna og smíða kassanna, sem eru léttir og meðfærilegir.

Áhugi hans kviknaði þegar hann gerði við hitakassa fyrir bróður sinn, barnalækni, og lærði í kjölfarið að smíða kassanna sjálfur. Hann fjármagnar verkefnið með því að fá fólk til að leggja til 27 þúsund krónur, kostnaðinn við einn hitakassa, en flestir gjafanna eru einstaklingar í miðstétt og margir úr heilbrigðisgeiranum.

Þeir sem þurfa á hitakassa að halda senda smáskilaboð í sérstakt númer og ef þörf þeirra er raunveruleg fá þeir kassann sendan heim. Þjónustan var í fyrstu bundin við Jakarta en er nú fáanleg í 48 borgum.

Prófessorinn hefur ráðið tvo nemenda sinna til að aðstoða sig og vonast til að geta boðið upp á þjónustuna í 300 borgum. Að sögn Koestoer hefur hann þegar smíðað 180 hitakassa, sem hafa hjálpað um 1.500 börnum, þeirra á meðal tvíburum og þríburum.

„Árangur okkar er 100%,“ segir hann. „1.500 börn; 100% á lífi og heilbrigð.“

 

 

„Hamingjusamasti maður í heimi“

Framtak prófessorsins hefur reynst Maryamah og foreldrum hennar, Yuliu Herawati og Prayogi, ómetanlegt.

Herawati gekkst undir keisaraskurð í febrúar, þegar hún var komin nærri 8 mánuði á leið, vegna háþrýstings. Barnið fékk fyrst um sinn að dvelja í hitakassa á sjúkrahúsinu vegna almannatryggingakerfisins en eftir sjö vikur, þegar Maryamah var aðeins 1,5 kg, sendu læknar fjölskylduna heim.

„Við vorum smám saman að jafna okkur á áfallinu að eignast fyrirbura en svo kom upp annað vandamál; hvernig áttum við að sjá um hana heima?“ segir Prayogi.

Vinur sagði honum frá leiguþjónustu Koestoer.

„Ég sendi skilaboð og viðbrögðin stóðu ekki á sér. Eftir nokkrar mínútur var hringt og mér sagt að við gætum sótt hitakassann um leið og barnið væri komið heim.“

Maryamah vegur nú 2,4 kg og þrátt fyrir að hún dvelji löngum stundum í kassanum þora foreldrar hennar nú að taka hana út og leika við hana.

Verkefnið útheimtir mikla vinnu en Koestoer segir það fullkomlega þess virði þegar hann sér börnin sem hann hefur hjálpað. „Þegar móðir kemur hingað með barn og það er við góða heilsu þá er ég hamingjusamasti maður í heimi,“ segir hann.

 

 

Þættir