Mafíósi skallaði fréttamann

ERLENT  | 10. nóvember | 12:11 
Lögreglan á Ítalíu hefur handtekið mafíósa eftir að hann skallaði fréttamann í úthverfi Rómar, Ostia. Atvikið hefur vakið mikla athygli á Ítalíu en það var tekið upp á myndband.

Lögreglan á Ítalíu hefur handtekið mafíósa eftir að hann skallaði fréttamann í úthverfi Rómar, Ostia. Atvikið hefur vakið mikla athygli á Ítalíu en það var tekið upp á myndband.

Rétt er að vara við myndbandinu sem fylgir fréttinni. 

Daniele Piervincenzi, sem starfar fyrir fréttastofuna Rai, spurði Roberto Spada út í tengsl hans við hægriöfgaflokkinn CasaPound.

Spada brást ókvæða við og skallaði Piervincenzi í andlitið, sem nefbrotnaði við það. Spada hélt áfram, dró fram kylfu og lamdi fréttamanninn á meðan tökumaðurinn hélt áfram að taka upp.

Spada var handtekinn í gær vegna árásarinnar og sögðu saksóknarar að hegðun hans væri dæmigerð aðferð sem skipulögð glæpasamtök notuðu til að ná stjórn á ákveðnum svæðum.

Hann á yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi.

Virginia Raggi, borgarstjóri Rómar, gagnrýndi ofbeldi Spada-fjölskyldunnar harðlega á Twitter og hét því að stöðva glæpi og öfgahyggju í Róm.

Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítalíu, brást við árásinni með því að hringja í Piervincenzi og lýsa yfir stuðningi við hann.

Spada-fjölskyldan er þekkt fyrir að beita ofbeldi. Sjö úr fjölskyldunni voru dæmd í samtals 56 ára fangelsi í október. Carmine, bróðir Robertos Spada, var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir fjárkúgun og tengsl við mafíuna.

„Hann lamdi mig vegna þess að ég spurði spurninga. Hann ætti að biðja Ostia fyrirgefningar,“ sagði Piervincenzi og átti þar við það slæma orð fer af úthverfinu vegna árásarinnar.

 

Fréttamennirnir höfðu ferðast um 30 kílómetra leið frá Róm vegna viðtalsins. Tilefnið var heimildarmynd um sveitarstjórnarkosningar, tveimur árum eftir að bæjarráðið í Ostia var leyst upp vegna tengsla við mafíuna.

Spada baðst afsökunar á árásinni á Facebook en sagði að fréttamaðurinn hefði komið í einkaklúbb og hefði hrætt son hans.

CasaPound hefur hafnað því að tengjast Spada-fjölskyldunni á nokkurn hátt og sagði flokkurinn árásina hafa verið „tilefnislausa, fyrirlitlega og ótrúlega“. 

Þættir