Þúsundir barna í bráðri lífshættu

ERLENT  | 10. nóvember | 12:04 
Þúsundir barna eru í lífshættu vegna hungurs í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess. Mohammad Sohail er eitt þeirra og grátur hans er óstöðvandi. Hann er nýkominn í búðirnar með móður sinni, Hasana Begum, og bróður en faðir hans var drepinn í árás á þorp rohingja í Rakhine-héraði í Búrma.

Þúsundir barna eru í lífshættu vegna hungurs í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess. Mohammad Sohail er eitt þeirra og grátur hans er óstöðvandi. Hann er nýkominn í búðirnar með móður sinni, Hasana Begum, og bróður en faðir hans var drepinn í árás á þorp rohingja í Rakhine-héraði í Búrma.

 

Þau eru meðal 610 þúsund rohingja sem hafa flúið yfir landamærin til Bangladess frá því í ágúst. Fjölskyldan fékk nánast ekkert að borða þá sjö daga sem flóttinn tók. Tvær vikur eru síðan þau komu í búðirnar og Mohammad er ekkert nema skinn og bein. Hann er 21 mánaðar.

„Við gengum dögum saman í rigningu, kulda og svo hita. Báðir synir mínir voru með hita og niðurgang og hafa enga matarlyst lengur,“ segir Begum í viðtali við AFP.

Að minnsta kosti 50 vannærð börn bíða eftir læknisþjónustu í Balukhali-flóttamannabúðunum þegar fréttamaður AFP kemur þangað.

 

„Ástand margra þessara barna er mjög tvísýnt. Margir foreldra þeirra gera sér jafnvel ekki grein fyrir því hversu alvarlegt vandamálið er,“ segir bráðaliði sem AFP ræddi við.

Hjúkrunarteymi annast dreifingu á mjög næringarríkum barnamat í þeirri von að börnin braggist en gríðarleg örvænting ríkir meðal allra – barna, foreldra og hjúkrunarfólks. 

Starfsfólk UNICEF áætlar að 25 þúsund börn sem eru í yfirfullum flóttamannabúðum rohingja þjáist af alvarlegri vannæringu. Ástand sem getur leitt til þess að fjöldi þeirra eigi eftir að deyja á næstu vikum.

„Rohingja-börnin í búðum, sem hafa lifað af hryllinginn í Rakhine-héraði og hættulegan flótta hingað, eru þegar föst í hamfaraástandi,“ segir Edouard Beigbeder, yfirmaður UNICEF í Bangladess.

Þau sem glíma við alvarlega vannæringu eru í lífshættu og þessi börn þurfa aðstoð strax, segir hann. Yfir helmingur þeirra sem dvelja í flóttamannabúðunum eru börn. Mörg þeirra hafa látist þar en ekki er vitað hvort vannæring hafi dregið þau til dauða. 

 

Getur ekki skilið þá eina eftir

Fyrir ekkjur eins og Begum sem hefur enga aðra fjölskyldumeðlimi til að reiða sig á blasir við nýtt vandamál. Að standa í biðröð eftir mat í sex til átta klukkustundir á dag. 

„Ég get ekki tekið þá með til þess að sækja neyðaraðstoð enda get ég ekki haldið á þeim og þungum poka á sama tíma,“ segir Begum en hún er 23 ára gömul. 

Hún getur heldur ekki skilið þá eftir undir segldúknum sem er þeirra heimili í dag enda er enginn þar til þess að gæta þeirra. Mohammad, sem er eins og áður sagði 21 mánaðar og Nur Alam sem er þriggja ára.

„Nágrannar okkar eru allir uppteknir af eigin vandamálum. Enginn á tíma aflögu til þess að gæta barna annarra,“ segir hún. 

 

Fréttamenn AFP sem hafa heimsótt flóttamannabúðirnar í Balukhali segja að flóttafólkið fái lítið sem ekkert að borða. Það sem er í boði er smávegis af hrísgrjónum og linsubaunir. Einstaka sinnum er hægt að verða sér úti um grænmeti og skreið.

„Slíkt mataræði er ekki nóg fyrir smábörn eða mæður með börn á brjósti. Í þessum búðum er fjöldi vannærðra barna orðinn svo mikill að það er um neyðarástand að ræða,“ segir Fazle Rabbi sem er hjálparstarfsmaður í búðunum.

 

Selja matinn fyrir eldivið

Hjálparstarfsmenn segja ástandið enn verra vegna þess að flóttafólkið selur matinn til íbúa í Bangladess til þess að verða sér úti um reiðufé. 

„Á hverjum degi kaupum við fullt af mat frá flóttafólkinu. Við greiðum þeim með reiðufé og fáum í staðinn hrísgrjón, linsubaunir, sykur, salt, matarolíu, þurrmjólk og barnamat,“ segir heildsali í nærliggjandi bæ, Ukhiya.

 

Flóttafólk sem viðurkennir að það selji matinn sem það fær úthlutað segir að það sé gert af neyð. Með því geti það keypt eldivið, föt og aðrar nauðsynjar. Rohingjar mega ekki vinna í Bangladess. „Við eigum engra annarra kosta völ en að selja mat,“ segir Karim Majhi sem býr í flóttamannabúðunum.

Hér er hægt að leggja neyðarsöfnun Rauða krossins lið

Þættir