Verulegar skemmdir á skipinu

INNLENT  | 5. nóvember | 16:32 
„Þeir fóru tveir niður í morgun og tóku út hvernig skipið situr og fóru svo bakborðsmegin og tóku myndir af skemmdum. Það myndskeið fer fljótlega í yfirferð af Ardent-mönnum og út frá því verður hægt að gera frekari áætlun,“ segir Helgi Hinriksson, verkefnastjóri hjá Köfunarþjónustunni.

Ekki var talið öruggt að senda menn í köfun til að kanna skemmdir á flutningaskipinu Fjordvik fyrr en í dag, en aðstæður voru mjög erfiðar um helgina. Þriggja manna teymi frá Köfunarþjónustunni fór í einnar og hálfrar klukkustundar langan köfunarleiðangur í morgun.

„Þeir fóru tveir niður í morgun og tóku út hvernig skipið situr og fóru svo bakborðsmegin og tóku myndir af skemmdum. Það myndskeið fer fljótlega í yfirferð af Ardent-mönnum og út frá því verður hægt að gera frekari aðgerðaáætlun,“ segir Helgi Hinriksson, verkefnastjóri hjá Köfunarþjónustunni.

 

Verulegar skemmdir eru á skipinu, að sögn Helga, og aðspurður segir hann Köfunarþjónustuna tilbúna í fleiri köfunarleiðangra ef þörf verður á.

Köfunarþjónustan ehf. er undirverktaki alþjóðlega björgunarfyrirtækisins Ardent sem fengið hefur verið í verkið af útgerð flutningaskipsins og voru tíu manns frá Köfunarþjónustunni að störfum á vettvangi þegar mest lét. „Við erum fengnir þeim til aðstoðar og til að verða þeim úti um allan þann búnað sem þeir þurfa til þess að geta staðið að þessari björgun á sem skilvirkastan hátt,“ segir Helgi.

Dæling á olíu úr skipinu hófst síðdegis í gær en gekk hægt. Ákveðið var að stöðva aðgerðir yfir nóttina til þess að útvega öflugri búnað. Aðgerðir hófust að nýju í morgun og var ágætisgangur kominn í dælinguna þegar mbl.is náði tali af Helga.

 

„Dælingin gengur vel núna og miðað við þennan gang ættum við að vera búnir um miðja nótt, en erum að skoða möguleika til þess að auka afkastagetuna.“

Um björgunaraðgerðirnar almennt segir Helgi ómögulegt að segja hversu langan tíma þetta muni taka. Ofuráhersla sé nú lögð á að koma olíu frá borði til þess að minnka líkur á umhverfisslysi.

Þættir