Athygli sem varð að martröð

ERLENT  | 6. December | 11:21 
Afganskur drengur, Murtaza Ahmadi, sem öðlaðist heimsfrægð fyrir ást sína á argentínska knattspyrnumanninum Lionel Messi árið 2016, fékk ósk sína um að hitta goðið uppfyllta en í dag er líf hans, líkt og svo margra flóttamanna, líkara martröð en eðlilegu lífi.

Afganskur drengur, Murtaza Ahmadi, sem öðlaðist heimsfrægð fyrir ást sína á argentínska knattspyrnumanninum Lionel Messi árið 2016, fékk ósk sína um að hitta goðið uppfyllta en í dag er líf hans, líkt og svo margra flóttamanna, líkara martröð en eðlilegu lífi. 

Murtaza, sem er orðinn sjö ára gamall, þurfti að flýja heimili sitt ásamt fjölskyldu sinni í Ghazni-héraði í síðasta mánuði. Eins og hundruð annarra eru þau á flótta undan ofbeldisverkum talibana í héraðinu sem áður var tiltölulega friðsælt miðað við mörg önnur svæði í Afganistan.

Frétt mbl.is

Nú eru þau ásamt þúsundum annarra flóttamanna að reyna að komast af í Kabúl á sama tíma og fjölskyldan óttast að talibanar finni fjölskylduna en þeir eru á höttunum eftir drengnum vegna frægðar hans.

Myndin af Murtaza spila fótbolta í treyju úr plasti merkta nafni Messi og númeri hans, 10, fór víða um samfélagsmiðla sem og fjölmiðla í byrjun árs 2016.

Þegar Messi frétti af þessu bauð hann Murtaza að hitta sig í Katar þar sem Messi, sem er góðgerðarsendiherra UNICEF, gaf honum áritaða treyju og fótbolta. En þessi hamingjustund Murtaza entist ekki lengi.

Flúðu allslaus um miðja nótt 

Þegar fréttamaður AFP-fréttastofunnar hitti fjölskylduna nýverið í pínulitlu herbergi í Kabúl sem þau leigja af annarri fjölskyldu á flótta kom í ljós að þau hafi neyðst til þess að flýja heimili sitt í Jaghori um miðja nótt. Allslaus.  „Við gátum ekki tekið neitt af dótinu okkar með, aðeins líf okkar,“ segir móðir Murtaza.

Frétt mbl.is

Fjölskyldan tilheyrir minnihlutahópi hazara, minnihlutahópi síjamúslima í landinu, sem talibanar leituðu uppi í Ghazni-héraði í nóvember. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum flúðu fjögur þúsund fjölskyldur heimili sín í héraðinu og eru lýsingar fólks skelfilegar af ofbeldisverkum vígamannanna. Ahmadi-fjölskyldan frétti að talibanar hefðu sérstakan áhuga á að fanga Murtaza vegna frægðar hans. 

„Þeir sögðu að ef þeir myndu fanga hann þá myndu þeir búta hann niður,“ segir móðir hans, Shafiqa. Eitt af því sem var nánast bannað í Afganistan í valdatíð talibana 1996-2001 voru íþróttir. 

Til að mynda var knattspyrnuvöllurinn í Kabúl einkum notaður fyrir aftökur og að grýta brotlega með steinum. 

Shafiqa segir að þau hafi reynt að hylja andlit Murtaza með trefli á flóttanum til þess að koma í veg fyrir að hann þekktist. Fyrst fengu þau skjól í mosku í Bamiyan en sex dögum síðar komu þau til Kabúl. Meðal þess sem þau skildu eftir þegar þau flúðu var fótboltinn og treyjan sem Messi gaf honum og áritaði.

Þrátt fyrir að afganski herinn hafi náð að brjóta á bak áhlaup talibana í Jaghori þorir fjölskyldan ekki að snúa aftur. „Að snúa aftur er ekki möguleiki því hættan á að talibanar komi aftur er of mikil,“ segir Shafiqa.

Saknar treyjunnar og boltans og líka Messi

Hún segir að athyglin sem drengurinn hafi fengið hafi aðeins aukið á ótta þeirra. Áhrifamenn í héraðinu hafi krafið þau um peninga. Að öðrum kosti myndu þeir taka drenginn og eins hafi verið fylgst með heimili þeirra. Þau hafi því ekki þorað að leyfa honum að vera úti að leika við önnur börn af ótta við að honum yrði rænt.

Fjölskyldan hefur áður þurft að flýja en þau flúðu til Pakistan árið 2016 og óskuðu eftir hæli í hvaða landi sem er svo lengi sem það væri öruggt land. En þegar þau voru orðin peningalaus sneru þau aftur heim til Jaghori. 

Frétt mbl.is

Faðir Murtaza, Arif, varð eftir í Jaghori þar sem hann starfar sem landbúnaðarverkamaður en aðrir í fjölskyldunni búa í einu herbergi í Kabúl. Þar hafa þau hvorki aðgang að vatni né hreinlætisaðstöðu. Matur er af skornum skammti. 

Þau eru meðal rúmlega 300 þúsund Afgana, þar af eru 58% þeirra börn yngri en 18 ára, sem hafa flúið heimili sín vegna ofbeldisins þar í landi það sem af er ári.  

Homayoun, sem er elsti bróðir Murtaza og sá sem bjó til Messi-treyjuna á sínum tíma, segir að hann sé líka hræddur í Kabúl. Þau hafi öll áhyggjur af Murtaza og framtíð hans. En á sama tíma segist Murtaza sakna fótboltans og treyjunnar. „Ég vil fá þau aftur svo ég geti spilað,“ sagði hann við fréttamann AFP. „Ég sakna Messi.“

Frétt mbl.is

Þættir