Fyrirliðinn verður að reyna draga vagninn

ÍÞRÓTTIR  | 21. April | 9:37 
Ingvar Þór Jónsson er elsti og leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í íshokkí. Þessi 38 ára gamli SA-ingur hefur spilað 98 A-landsleiki á þessum 20 árum síðan hann kom fyrst inn í hópinn. Hann mun því spila 100. landsleik sinn á móti Norður-Kóreu kl. 18 annað kvöld, á annan í páskum, en liðin mætast þá á heimsmeistaramóti karla í Mexíkóborg.

Ingvar Þór Jónsson er elsti og leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í íshokkí. Þessi 38 ára gamli SA-ingur hefur spilað 98 A-landsleiki á þessum 20 árum síðan hann kom fyrst inn í hópinn. Hann mun því spila 100. landsleik sinn á móti Norður-Kóreu kl. 18 annað kvöld, á annan í páskum, en liðin mætast þá á heimsmeistaramóti karla í Mexíkóborg.

Aðspurður um hvort það fylgi einhver fríðindi að vera elsti leikmaðurinn í hópum segir Ingvar að: „þeir sjá eiginlega bara um mig yngri strákarnir, það er svo sem allt og sumt. En þeir hjálpa mér þegar ég bið þá um það, annars eru lítil fríðindi.“

Ingvar hefur verið fyrirliði liðsins nánast frá upphafi, að undanskildum örfáum mótum. „Fyrirliðinn verður bara að leiða liðið bæði inn á ís og utan þess og reyna að draga vagninn, sérstaklega þegar þess þarf“ segir Ingvar um hlutverk fyrirliðans, en bætir jafnframt við að: „Svo breytist þetta svona með árunum. Það heyrðist sjálfsagt meira í mér og fór meira fyrir mér á ísnum fyrir einum 10 árum síðan. Maður reynir bara að leiða hópinn með öðrum hætti núna. Svo eru margir leiðtogar í hópnum þannig að þetta er þokkalega þægilegt hlutverk, eins og er allavega.“

Ísland er alla jafna með þjóðum í deildum sem ekki eru þekkt á íshokkísviðinu - landsliðið hefur því farið víða um heim og spilað á áhugaverðum stöðum. Aðspurður um hvernig honum litist á umgjörðina hérna í Mexíkó hafði Ingvar þetta að segja:

„Hún er áhugaverð, hótelið magnað - lofar góðu sýnist mér og maturinn. En hérna í höllinni, sem er í verslunarmiðstöð, þarf að koma sex liðum fyrir og það verður býsna þröngt í klefunum hjá okkur. Það er hlýtt hérna og við erum í mikilli hæð yfir sjávarmáli þannig að ísinn er ansi mjúkur. Svellið sjálft er líka aðeins minna en við höfum vanist heima þannig að við þurfum að aðlaga okkur að þessum aðstæðum.“ „Svona heilt yfir er þetta allt í lagi held ég bara - við sjáum svo til hvernig ísinn verður í leikjunum“ bætir Ingvar við.

En hvernig gengur þeim að aðlagast svona mikilli hæð yfir sjávarmáli?  „Við finnum sjálfsagt alveg fyrir þessu, sérstaklega ef maður tekur langa skiptingu eða svoleiðis, vinnur af einhverri hörku í mínútu inn á ísnum þá finnur maður strax fyrir því. Við vonum bara að við getum spilað á öllu liðinu og dreift álaginu“ segir Ingvar en bætir við: „Og svo hugsar Manny (sjúkraþjálfari) sjálfsagt vel um okkur þannig að vonandi verður þetta bara allt í lagi. Það þurfa öll liðin að glíma við þetta, Mexíkó kannski þeir einu sem eru vanir þessu. Þannig að við sjáum bara til hvernig leikirnir þróast.“

Fyrsti leikur í kvöld við Ísrael, þeir eru sæti neðar en við á styrkleikalistanum - hvernig líst þér á hann? „Það verður bara skemmtilegt, við höfum ekki spilað við þá í nokkur ár núna en ég veit að þeir eru með mjög sterka leikmenn innanborðs - atvinnumenn þarna jafnvel. Við sjáum til hvernig þeir verða - þeir eru stundum svolítið óskrifað blað. Maður veit ekki hvaða leikmenn mæta hverju sinni“ segir Ingvar.

„En ég held þeir verði mjög sterkir í ár. Við verðum að vera á tánum og mæta ferskir í þann leik.“

Leikur Ísraels og Íslands hefst kl. 18 að íslenskum tíma og verður í beinu streymi hér.

Þættir