290 látnir á Srí Lanka

ERLENT  | 22. apríl | 7:31 
Alls eru 290 látnir í hrinu sprengjutilræða í kirkjum og lúxushótelum víða um Sri Lanka í gær. Að sögn lögreglu hafa 24 verið handteknir en ekki er enn vitað hverjir standa á bak við hryðjuverkin. Um 500 eru særðir og tugir útlendinga eru meðal látinna.

Alls eru 290 látnir í hrinu sprengjutilræða í kirkjum og lúxushótelum víða um Srí Lanka í gær. Að sögn lögreglu hafa 24 verið handteknir en ekki er enn vitað hverjir standa á bak við hryðjuverkin. Um 500 eru særðir og tugir útlendinga eru meðal látinna.

Kröftugar sprengjur sprungu um svipað leyti á þremur hótelum í höfuðborg Srí Lanka, Colombo, í gær. Sprengja sprakk á Cinnamon Grand klukkan 8:30 að morgni páskadags (klukkan 3 að nóttu að íslenskum tíma), á Shangri-La hótelinu skömmu síðar eða klukkan 9:05 og Kingsbury hótelinu um svipað leyti. 

Árásir voru einnig gerðar á þrjár kirkjur í þremur borgum landsins. Í öllum sex tilvikunum var um sjálfsvígsárásir að ræða. Nokkrum klukkutímum síðar gerði lögreglan húsleit á tveimur stöðum og fundust sprengiefni á þeim báðum. Þrír lögreglumenn létust á einum stað í sjálfsvígsárás. Heimatilbúin sprengja var gerð óvirk á flugvellinum í Colombo í gærkvöldi.

Árásirnar í gær eru þær skelfilegustu sem gerðar eru á kristna minnihlutann á Srí Lanka en fjölmenni var í kirkjunum þremur í gær þegar árásirnar voru gerðar. Yfir 500 særðust í árásunum. 

Að minnsta kosti 37 útlendingar létust, þar af þrír Bretar, fimm Indverjar, tveir Tyrkir, Portúgali og þrír Danir. Að sögn utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, létust nokkrir Bandaríkjamenn í árásunum. Að sögn lögreglu hefur verið tilkynnt um að níu útlendinga sé saknað og ekki hafa verið borin kennsl á að minnsta kosti 25 lík sem talið er öruggt að séu af útlendingum.

Enn hafa engin samtök lýst yfir ábyrgð á árásunum. Lítið hefur verið gefið upp um þær 24 manneskjur sem eru í haldi lögreglu. Allt frá því að stjórnarherinn hafði betur í baráttunni við Tamíl tígra hefur verið fremur friðsælt á eyjunni. Til átaka hefur komið á milli búddista, sem eru í meirihluta, og múslíma, sem eru í minnihluta á Srí Lanka. Kristnir hafa einnig kvartað undan árásum og yfirgangi af hálfu búddista á Srí Lanka undanfarin ár. 

Ríkislögreglustjóri varaði háttsetta embættismenn við því fyrir páska að mögulega yrðu gerðar árásir í landinu. Bæði væru kirkjur kristinna og sendiráð Indverja í hættu á árásum af hálfu íslamista (National Thowheeth Jama'ath, NTJ).

 

Þættir