Láta engan bilbug á sér finna

INNLENT  | 14. ágúst | 16:15 
Fyrirtæki í rekstri á Hverfisgötu eru að vonum ekki kát með framkvæmdirnar sem staðið hafa yfir á kaflanum við Þjóðleikhúsið í sumar en þau halda ótrauð áfram og viðskiptavinir sýna þeim skilning.

Tónninn í atvinnurekendum við þann kafla Hverfisgötu sem er undirlagður framkvæmdum, frá Smiðjustíg niður að Ingólfsstræti, er ekki sérstaklega góður en þeir eru engu síður spenntir fyrir nýrri Hverfisgötu. Framkvæmdir hafa tafist og óvissa hefur verið um hvort hægt yrði að opna götuna fyrir gangandi á menningarnótt, en Reykjavíkurborg segir í tilkynningu í dag að gert sé ráð fyrir að svo verði. Fjórir matsölustaðir hafa hætt starfsemi á svæðinu nýlega, þó ekki séu þau málalok beintengd þessum framkvæmdum: Essensia og Systir, Mikkeller og Dill, en rekstur þriggja síðastnefndu var undir sama hatti.

NORR11 er húsgagnaverslun við Hverfisgötu 18A sem staðsett er í porti beint á móti Þjóðleikhúsinu. Engin leið er að keyra inn í portið en bílastæðahús við Traðarkot bjargar málunum að einhverju leyti.

Reykjavík Residence, hótelkeðja í miðbænum, er með 10 hótelíbúðir í hvíta húsinu við hlið Þjóðleikhússins, og þar er starfsemi í fullum gangi. Eftir að framkvæmdirnar fóru að teygja sig upp götuna fyrir framan húsið varð þó meiri röskun en áður.

 

Virðingarleysi gagnvart rekstraraðilum

Rannveig Kristjánsdóttir, verslunarstjóri NORR11, segir að engan bilbug sé á mönnum að finna á þeim bænum og að reynt sé að hugsa í lausnum. „Það hefur verið góður gangur á rekstrinum hjá okkur undanfarið og við erum sem betur fer með vöru sem fólk er tilbúið að leggja ýmislegt á sig til þess að sjá og kaupa. Við höfum bent viðskiptavinum á bílastæðahúsið í Traðarkoti og gönguleiðir frá Laugavegi,“ segir Rannveig Kristjánsdóttir, verslunarstjóri NORR11. „Við höfum skilning á því að það þarf að fara í þessar framkvæmdir og hlökkum til að vera partur af nýrri fallegri Hverfisgötu,“ segir hún.

 

„Hins vegar er það algjört virðingarleysi hvernig borgin hefur farið fram gagnvart rekstraraðilum í götunni. Framkvæmdin var kynnt með viku fyrirvara, engar dagsetningar virðast ætla að standast og þegar lítill gangur er á verkinu segja þau að erfitt sé að manna verkin,“ segir Rannveig. Frábært veður hafi verið í sumar og hægt að vinna allan sólarhringinn ef áhugi væri fyrir því að klára framkvæmdirnar. „Borgin færði okkur óumbeðna óþarflega erfiða áskorun og við tökum henni eins og hverri annarri áskorun og ætlum að sigrast á henni,“ segir Rannveig. 

Raskið var meira ofar á Hverfisgötu

Reykjavík Residence er með hótelíbúðir við Hverfisgötu 21 þar sem framkvæmdir eru nú í fullum gangi, á móti bílastæðahúsinu. Framkvæmdirnar loka á aðgengi að húsinu beint frá Hverfisgötu. „Þetta er óþægileg aðkoma fyrir gesti, ekki síst með farangur meðferðis og annað slíkt, en þeir hafa verið mjög skilningsríkir hingað til. Núna er þetta að verða snúnara því þeir eru að fara í framkvæmdir alveg fyrir framan húsið,“ segir Guðbjartur Árnason, sölustjóri Reykjavík Residence.

 

Hann segir að látið hafi verið vita með ákveðnum fyrirvara og að út frá því hafi einfaldlega verið brugðist við og reynt að sýna lipurð. „Við erum með fulla starfsemi í gangi og upplýsum gestina bara um að framkvæmdir standi yfir og að þær séu ekki á okkar vegum heldur borgarinnar,“ segir hann. „Þetta var í raun miklu verra þegar framkvæmdirnar voru ofar á Hverfisgötunni fyrir nokkrum árum,“ segir Guðbjartur, en þar er Reykjavík Residence einnig með gistingu, á Hverfisgötu 45. „Það var miklu meira rask en þetta. En þetta er ekki þægileg staða núna, það er alveg ljóst mál,“ segir hann.

Þættir