Járnpramminn færist í átt að fossbrúninni

ERLENT  | 4. nóvember | 15:37 
Bátur úr járni sem hefur setið fastur ofan við Niagara-fossana í rúma öld hefur nú færst til vegna vinda og mikilla vatnavaxta í ánni.

Bátur úr járni sem hefur setið fastur ofan við Niagara-fossana í rúma öld hefur nú færst til vegna vinda og mikilla vatnavaxta í ánni.

„Við teljum hann nú vera kominn um 50 metra neðar í ánni en hann var upphaflega hefur AFP-fréttastofan eftir Jim Hill, einum yfirmanna Niagara-þjóðgarðsins. Segir Hill bátinn við tilfærsluna enn fremur hafa lagst á hliðina.

Fjölmiðlar á svæðinu segja miklar rigningar og sterka vinda sem voru á þessum slóðum í lok síðustu viku hafa valdið því að báturinn, sem þekktur er sem „Iron Scow“ eða „Járnpramminn“ hreyfðist til, en hann hafði þá verið fastur í klettum um 600 metra frá fossbrúninni frá því árið 1918.

Það var 6. ágúst það ár sem báturinn losnaði frá dráttarbáti sem var með hann í togi. Tveir menn voru um borð í bátnum þegar þetta gerðist og urðu við það strandaglópar þar til tókst að bjarga þeim daginn eftir.

„Hann virðist vera nokkuð fastur í augnablikinu, en ef veðrið færist aftur í aukana kann hann að flytjast frekar til,“ hefur CBC-sjónvarpsstöðin eftir David Adames, stjórnarformanni Niagara-þjóðgarðsins.

Milljónir ferðamanna heimsækja Niagara-fossana, sem eru á landamærum Bandaríkjanna og Kanada, á ári hverju.

Þættir