Eins og hryllingsmynd

ERLENT  | 21. febrúar | 8:26 
Þetta var eins og hryllingsmynd segir sjónarvottur að skotárás á bar í þýsku borginni Hanau í gærkvöldi. Flest fórnarlömbin eru Kúrdar og Tyrkir en árásarmaðurinn var öfgasinni sem hataði útlendinga. Hann endaði með því að skjóta móður sína og taka eigið líf á heimili þeirra.

Þetta var eins og hryllingsmynd segir sjónarvottur að skotárás á bar í þýsku borginni Hanau í gærkvöldi. Flest fórnarlömbin eru Kúrdar og Tyrkir en árásarmaðurinn var öfgasinni sem hataði útlendinga. Hann endaði með því að skjóta móður sína og taka eigið líf á heimili þeirra. Alls náði hann að drepa níu manns og særa fimm lífshættulega áður en hann beindi byssunni að sjálfum sér.

Frétt mbl.is

Íbúar í Hanau, 100 þúsund manna borg skammt frá Frankfurt, eru í sárum. Árásin er ekkert einsdæmi því öfgasinnum hefur vaxið fiskur um hrygg í landinu undanfarin misseri og ár.

 

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fordæmir eitur rasisma og haturs í þýsku samfélagi í ávarpi sem hún flutti fyrir skömmu í tilefni árásanna. „Rasismi er eitur, hatur er eitur og þetta eitur finnst í okkar samfélagi og nú þegar ber það ábyrgð á allt of mörgum glæpum,“ segir Merkel.

Alríkislögreglan rannsakar málið sem hryðjuverk og segir að nægar sannanir séu fyrir hendi sem sýna að maðurinn, Tobias R. 43 ára, hafi framið ódæðin á grundvelli útlendingahaturs.

Fyrri árásin var gerð um klukkan 22 í miðborginni á bar sem nefnist Midnight. Vitni segja að tugir skothvella hafi heyrst frá staðnum. Þaðan fór vígamaðurinn í Kesselstadt-hverfið þar sem hann skaut á gesti á Arena Bar & Cafe. Báðir barirnir eru vatnspípubarir (shisha) en slíkir staðir eru vinsælir í Mið-Austurlöndum og Asíu. 

Næstu sjö klukkustundirnar leitaði lögreglan árásarmannsins og árásarmanna því ekki var vitað hvort árásarmennirnir væru fleiri en einn. Að lokum fannst heimili mannsins og þar hafði hann skotið 72 ára gamla móður sína til bana og tekið eigið líf. 

Innanríkisráðherra Hesse, Peter Beuth, segir að það sem vitað sé með vissu er að útlendingahatur lá á bak við hryðjuverkin. Hann lét eftir sig stefnuskrá og myndskeið þar sem hann lýsir hatri á útlendingum.

Can-Luca Frisenna, sem starfar í sjoppu þar sem önnur árásin átti sér stað segir að faðir hans og bróðir hafi verið á staðnum þegar árásin var gerð.

„Þetta er eins og að hafa lent í kvikmynd, þetta er eins og lélegur brandari, að einhver sé að gera at í okkur,“ sagði hann í viðtali við Reuters-fréttastofuna. „Ég næ ekki alveg utan um hvað gerðist. Félagar mínir, þeir eru eins og fjölskylda mín — enginn okkar getur skilið þetta.“

Frétt mbl.is

Í október drap öfgasinni tvo og reyndi að komast inn í bænahús gyðinga í Halle. Sá árásarmaður var með beina lýsingu frá árásinni á netinu. Hann játaði síðar að ástæðan á bak við árásina hafi verið gyðingahatur.

Í júní  var Walter Lübcke, stjórnmálamaður sem studdi hælisleitendur, skotinn í höfuð af stuttu færi og fannst látinn í garði sínum. Öfgamaður með tengsl við öfgaþjóðernisflokk játaði síðar á sig morðið.

Í júlí 2016 skaut 18 ára unglingur 9 manns til bana í verslunarmiðstöð í München áður en hann tók eigið líf. Lögreglan í Bæjaralandi sagði að ástæðan á bak við morðin hafi verið rasísk en morðinginn aðhylltist öfga-þjóðernisskoðanir. 

 

Borgarstjórinn í Hanau, Claus Kaminsky, segir atburðina í gærkvöldi skelfilega og ekki sé hægt að hugsa sér svo skelfilega hluti. Talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar, Steffen Seibert, segir hug ríkisstjórnarinnar vera hjá fjölskyldum fórnarlambanna. Rasismi sé eins og krabbamein. 

Fyrir nokkrum dögum var einn skotinn til bana og fjórir særðir fyrir utan samkomusal í Berlín þar sem fram fór tyrknesk skemmtun.

Svo virðist sem hryðjuverkamaðurinn hafi skotið fólk af handahófi í gærkvöldi. Að sögn vitna eru flest fórnarlömbin ungt fólk.

For­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, Ursula von der Leyen, segist vera í miklu áfalli eftir að hafa heyrt fréttirnar af árásunum. Hugur hennar sé hjá aðstandendum og vinum þeirra sem létust. „Við syrgjum með ykkur í dag.“

Frétt mbl.is

Sky News

BBC

Guardian

Þættir