Nýtt met slegið í fjölda smita

ERLENT  | 14. september | 16:10 
Aldrei hafa jafn margir greinst með kórónuveiruna á einum sólarhring og í gær. Alls voru staðfest 307.930 ný smit í gær samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Yfir 5.500 létust af völdum COVID-19 í gær.

Aldrei hafa jafn margir greinst með kórónuveiruna á einum sólarhring og í gær. Alls voru staðfest 307.930 ný smit í gær samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Yfir 5.500 létust af völdum COVID-19 í gær.

Alls eru 917.417 látnir af völdum COVID-19 í heiminum og 29 milljónir hafa smitast af veirunni frá því hún greindist fyrst í kínversku borginni Wuhan í desember.

Mest fjölgun nýrra smita er í þremur ríkjum – á Indlandi voru greind 94.372 í gær, 45.523 í Bandaríkjunum og 43.718 í Brasilíu, að því er segir í frétt BBC.

WHO varar við því að búast megi við fjölgun dauðsfalla af völdum COVID-19 í október og nóvember.

 

Framkvæmdastjóri WHO í Evrópu, Hans Kluge, segir að ástandið eigi eftir að versna í Evrópu á næstu mánuðum. Nýjum smitum hefur fjölgað í nokkrum ríkjum Evrópu undanfarnar vikur og mest er fjölgunin á Spáni og í Frakklandi. Hann telur að þessi fjölgun nýrra smita muni leiða til þess að dauðsföllum taki að fjölga að nýju í Evrópu.

Hann segist skilja að fólk vilji ekki heyra þessar slæmu fréttir og ítrekar að það muni koma að því að faraldurinn renni sitt skeið á enda. 

Fjallað verður um fjölgun nýrra smita í Evrópu á fundi WHO með 55 ríkjum Evrópu í dag og á morgun. Þar verður staðan rædd og stefna WHO í Evrópu til næstu fimm ára. 

Kluge varar við því að einblína um of á bóluefni við kórónuveirunni. Það eitt og sér muni ekki binda enda á faraldurinn.

 

„Ég heyri stöðugt: bóluefnið mun stöðva faraldurinn. Að sjálfsögðu ekki!“ segir Kluge í samtali við AFP-fréttastofuna. Ekki sé vitað hvort bóluefnið muni virka á alla og eins og staðan er núna bendir ýmislegt til að það muni koma einhverjum hópum vel en ekki öðrum.

„Og ef við verðum að panta ólíkar tegundir bóluefna – þá verður skráningin martröð,“ segir hann.

Faraldrinum lýkur þegar samfélögum tekst að læra að lifa með faraldrinum og það er okkar að láta það takast. Sem er afar jákvætt segir hann. 

Nýjum smitum hefur fjölgað hratt í Evrópu undanfarnar viku. Á föstudag voru yfir 51 þúsund ný smit staðfest í ríkjum Evrópu og hafa þau ekki verið jafn mörg á einum sólarhring síðan í apríl. Á milli 400 og 500 Evrópubúar deyja úr COVID-19 á hverjum degi.

Þættir